Fótbolti

Samningaviðræður Birkis og Hammarby sigldu í strand

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Birkir Már hefur spilað með Hammarby undanfarin þrjú tímabil.
Birkir Már hefur spilað með Hammarby undanfarin þrjú tímabil. vísir/getty
Flest bendir til þess að Birkir Már Sævarsson sé á förum frá sænska úrvalsdeildarliðinu Hammarby eftir tímabilið. Viðræður um nýjan samning hafa siglt í strand.

„Ég býst ekki við því að félagið og leikmaðurinn nái samkomulagi,“ sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Birkis, í samtali við FotbollDirekt.se.

„Við höfum reynt, báðir aðilar skilja stöðu hins. Það er erfitt fyrir Birkir að taka á sig launalækkun og erfitt fyrir Hammarby að hækka boðið sitt,“ bætti Ólafur við.

Í fréttinni segir að Hammarby ætli ekki að selja Birki nema mjög gott tilboð berist. Hann mun því væntanlega klára samning sinn við Hammarby og finna sér nýtt félag eftir að tímabilinu lýkur.

Birkir, sem er 32 ára, hefur verið í herbúðum Hammarby frá árinu 2015.

Í dag bárust fréttir af því að Ögmundur Kristinsson væri á förum frá Hammarby til Excelsior í Hollandi. Ögmundur er búinn að missa sætið sitt í byrjunarliði Hammarby og er frjálst að fara frá félaginu.


Tengdar fréttir

Ögmundur fer til Hollands

Sænskir fjölmiðlar fullyrða að Ögmundur Kristinsson muni fara til Excelsior í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×