Skoðun

Hvaða æru er verið að reisa við?

Bryndís Víglundsdóttir skrifar

Nú fer fram í samfélagi okkar mikil umræða um æruna og uppreist æru. Samkvæmt málskilningi mínum ætti uppreist æru að þýða að manni sé aftur fengin eða gefin æran sem tapaðist. Ég er ekki löglærð og ef til vill skilur löggjafinn hugtakið á annan hátt en ég. En á mig sækir hugsunin hvort maður sem nauðgar t.d. fimm ára barni eigi einhverja æru.



Nefndarfundi í Alþingi var sjónvarpað 30. ágúst sl. og var þar rætt um uppreist æru og forsendur gjörningsins. Ég heyrði ekki að hugtakið æra væri skilgreint. Í orðabókum og á Netinu eru tilgreind mörg dæmi um notkun hugtaksins og mér virðist sem orðin æra og traust séu yfirleitt nefnd saman. Ég leyfi mér að tilgreina nokkur dæmi úr ýmsum áttum.



Æruverðugur einstaklingur nýtur trausts og virðingar vegna frammistöðu sinnar og verka. Hann nýtur trausts og virðingar bæði meðal almennings og nákominna sem þekkja hann best.



Æruverðugur einstaklingur umgengst meðbræður sína með virðingu og sjálfur á hann siðferðisstyrk sem ekki verður haggað.

Traustið og virðinguna ávinnur einstaklingurinn sér, aðrir geta ekki úthlutað þessum eiginleikum.



Andstæðan við ofantaldar lýsingar er svo ærulaus maður.



Og enn spyr ég hvaða æru er verið að veita barnaníðingum og öðrum níðingum AFTUR? Áttu þeir einhverja æru þegar þeir voru að vinna óhæfuverkin? Spyr sá sem ekki veit.



Dómsmálaráðherra talaði um að ástæða væri til að endurskoða núgildandi lög um það ferli sem kallað er uppreist æru. Verði af því vona ég að vandað verði til verka við lagasetninguna.

 



Höfundur er fyrrverandi skólastjóri Þroskaþjálfaskólans.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×