Frauke Petry, stjórnarformaður og eitt þekktasta andlit hægriöfgaflokksins Valkosts fyrir Þýskaland, hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að starfa með þingflokknum. Flokkurinn var helsti sigurvegari þýsku kosninganna í gær.
Valkostur fyrir Þýskaland (AfD) hlaut 12,6% atkvæða og verður fyrsti öfgahægriflokkurinn sem tekur sæti í þýska þinginu í meira en hálfa öld, að því er segir í frétt Reuters.
Ákvörðun Petry kemur því verulega á óvart. Hún hefur verið ein helsta stjarna flokksins en hefur reyndar verið minna áberandi undanfarna mánuði.
„Ég hef ákveðið að ég muni ekki vera hluti af þingflokki AfD í þýska þinginu en verð óháður þingmaður í neðri deildinni til að byrja með,“ sagði Petry á blaðamannafundi í morgun áður en hún rauk á dyr.
