Fótbolti

Elías Már fær einkunnina „umbinn hættur að hringja“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elías Már Ómarsson er í basli í Svíþjóð.
Elías Már Ómarsson er í basli í Svíþjóð. vísir/getty
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson fær ekki háa einkunn fyrir frammistöðu sína með IFK Gautaborg á yfirstandandi leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni en þetta fyrsta heila árs framherjans hjá IFK hefur reynst honum erfitt.

Elías Már var lánaður frá Vålerenga til Gautaborgar um mitt síðasta sumar og þá sló hann rækilega í gegn. Suðurnesjamaðurinn byrjaði tólf af þrettán leikjum liðsins sem eftir voru og skoraði sex mörk. Honum héldu engin bönd.

Gautaborg gekk frá endanlegum samningi við Elías síðasta vetur en hann hefur ekki náð að fylgja eftir góðri byrjun sinni. Elías Már er aðeins búinn að byrja þrjá leiki af 24 í sænsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð, koma 18 sinnum inn á sem varamaður og á enn eftir að skora mark. Hann hefur þó lagt upp tvö.

Sænska fótboltavefsíðan Fotbolldirekt.se fékk ritstjóra stuðningsmannasíðunnar „Alltid Blåvitt“ eða Alltaf bláir og hvítir til að gefa öllum leikmönnum IFK Gautaborgar einkunn fyrir frammistöðuna á tímabilinu.

Þar er Elías Már neðstur með tvo í einkunn en útskýringin á þeirri einkunn í einkunnagjöfinni er: „umbinn er hættur að hringja.“

„Hvar skal byrja? Ég bjóst við svo miklu meira frá honum eftir frammistöðuna í fyrra. Hann skoraði einhver mörk á móti Landvetter í bikarnum en ég veit ekki hvort það telst með. Hann hefur ollið vonbrigðum og kannski væri betra að hann spilaði bara með unglingaliðinu,“ segir í umsögn um Elías Má.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×