Fótbolti

Andri Lucas Guðjohnsen afgreiddi Rússana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Byrjunarlið Íslands í leiknum í dag.
Byrjunarlið Íslands í leiknum í dag. Mynd/KSÍ
Íslenska sautján ára landsliðið í fótbolta tryggði sér sæti í milliriðli Evrópumótsins í dag eftir sigur á Rússum. Strákarnir héldu marki sínu hreinu í öllum leikjunum.

Íslenska liðið vann Rússa 2-0 í lokaleik sínum í riðlinum en strákarnir höfðu áður gert markalaust jafntefli við heimamenn í Finnlandi og unnið 2-0 sigur á Færeyjum. Stefán Ingi Sigurðarson skoraði bæði mörkin á móti Færeyjum.

Nú var hinsvegar komið að Andra Lucas Guðjohnsen sem afgreiddi Rússana með tveimur mörkum með fimm mínútna millibili í fyrri hálfleiknum.

Fyrra markið skoraði Andri Lucas úr vítaspyrnu á 25. mínútu en það seinna skoraði hann á 30. mínútu eftir stoðsendingu frá fyrirliðanum Ísak Snæ Þorvaldssyni.

Andri Lucas er sonur markahæsta landsliðsmanns Íslands frá upphafi, Eiðs Smára Guðjohnsen.

Finnar unnu 4-0 sigur á Færeyingum í hinum leik riðilsins og urðu því ofar en íslenska liðið á markatölu.

Fjölnismaðurinn Sigurjón Daði Harðarson hélt marki íslenska liðsins hreinu í öllum þremur leikjunum.

Þorlákur Már Árnason þjálfar íslensku strákana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×