Innlent

„Hann hefur verið ótrúlegur leiðtogi og frumkvöðull“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hanna Katrín er full virðingar í garð fyrrverandi formanns Viðreisnar fyrir að hafa látið hagsmuni flokksins ganga fyrir.
Hanna Katrín er full virðingar í garð fyrrverandi formanns Viðreisnar fyrir að hafa látið hagsmuni flokksins ganga fyrir. visir.is/Eyþór
„Það er rosaleg eftirsjá að Benedikt úr þessu sæti. Hann hefur verið ótrúlegur leiðtogi og frumkvöðull. Ástæðan fyrir því að við erum flest hérna sem nýgræðingar í pólitík er sú að hann hreif okkur með sér með sýn og eldmóð. Ég hefði aldrei trúað því að nokkur næði að toga mig inn í þetta,“ segir Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar um ákvörðun Benedikts að stíga til hliðar sem formaður. 

Benedikt tilkynnti flokksmönnum það í morgun að hann hygðist víkja til hliðar og í hans stað kæmi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra.

„Benedikt tilkynnti okkur þetta á þingflokknum í morgun að hann væri búinn að stíga til hliðar, hann gerði það að tillögu sinni að Þorgerður tæki við sem formaður fram að landsþingi sem er fyrirhugað einhvern tíman í upphafi nýs árs,“ segir Hanna Katrín í samtali við Vísi.

Mikil virðing borin fyrir Benedikt

Hanna Katrín er full aðdáunar á Benedikt fyrir að hafa látið hagsmuni flokksins ganga fyrir því hún segir það hafa legið ljóst fyrir að flokkurinn kæmi ekki vel út í skoðanakönnunum.

„Það er hins vegar staðreynd að við höfum fundið fyrir ákveðnum mótbyr. Það sem mér er efst í huga núna er að hann ætlar sér að halda áfram að starfa með okkur þó hann hafi stigið til hliðar sem formaður. Ég held að ef ekki fordæmalaust þá fordæmalítið í íslenskri pólitík að menn taki svona stóra ákvörðun, taki sjálfa sig til hliðar og láti hagsmuni flokks og kjósenda ganga fyrir.“

Hanna Katrín lýsir andrúmsloftinu á nýafstöðnum fundi ráðgjafaráðs Viðreisnar: „Ef það er einhver tilfinning hér í salnum sem er öðrum fremur sterkari þá er það bara virðing. Fullkomin virðing,“ segir Hanna sem er full tilhlökkunar að hefja „þennan hasar“ undir forystu Þorgerðar Katrínar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×