Innlent

Íhuga að kæra ákvörðun um stækkun friðlands Þjórsárvera

Höskuldur Kári Schram skrifar
Sveitarstjórn Ásahrepps íhugar að kæra þá ákvörðun umhverfisráðherra að stækka friðland Þjórsárvera. Oddviti sveitarstjórnarinnar gagnrýnir ráðherra harðlega í málinu.

Þjórsárver voru fyrst friðlýst árið 1981 en meðákvörðun ráðherra sem var undirrituðá mánudag stækkar svæðiðúr 375 ferkílómetrum í 1.563 ferkílómetra. Stækkunin þýðir að austurhluti friðlandsins mun ná undir stóran hluta Ásahrepps en heimamenn telja gagnrýnisvert hvernig staðið var að friðlýsingunni. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar í dag.

„Við teljum það mikilvægt núna þegar menn tala um að margfalda þetta friðland, sem við erum alls ekki á móti, þá fylgi því fjármagn til að halda utan um svæðið. Það er krafa okkar og metnaður,“ segir Egill Sigurðsson oddviti Ásahrepps.

Sveitarfélagið hafði óskað eftir fresti til að skila inn umsögn um málið en þeirri beiðni var hafnað. Egill undrast þennan málshraða og segir kosningabrag á málinu.

„Þetta er drifið áfram af einhverju öðru en umhyggju fyrir náttúrunni,“ segir Egill.

Hann útilokar ekki að sveitarfélagið grípi til aðgerða vegna þessa.

„Við íhugum að kæra þessa stjórnsýslu. Þá erum við að tala um utanumhald og málatilbúnað hjá ráðherra. Ég tel þessa friðlýsingu algjöra markleysu ef það fylgir ekki orð og gerðir eftir í friðlýsingarskilmálum og fjármagn til að halda utanum svæðið,“ segir Egill




Fleiri fréttir

Sjá meira


×