Innlent

Ráðgjafaráð fundar um stöðu formanns Viðreisnar: Benedikt er á staðnum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Fundur stendur yfir hjá ráðgjafaráði Viðreisnar um stöðu Benedikts Jóhannessonar formanns flokksins. Samkvæmt heimildum fréttastofu er Benedikt nú staddur á fundinum.

Fréttablaðið sagði frá því í dag að veruleg óánægja og reiði er meðal Viðreisnarfólks með frammistöðu og ummæli Benedikts Jóhannessonar, formanns flokksins, í Forystusætinu á RÚV á mánudagskvöld. Ummæli hans um tilefni stjórnarslitanna voru gagnrýnd harðlega. 

Þegar Benedikt var spurður í þættinum hvort hann deildi skoðun Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra að ekki hefði verið tilefni til að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu svaraði hann:

„Þetta mál, sem þótti svo stórt að það væri ástæða stjórnarslita, það man varla nokkur hvað þetta er. Ef að þetta hefði verið stjórnarslitamál þá ætti þetta að vera eitt aðalkosningamálið núna.“

Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum og sagði þau klaufaleg. Hann sagði þá einnig að ekki hafi verið ætlun hans að gera lítið úr þeim sársauka sem þolendur kynferðisbrota og aðstandendur verða fyrir. Viðreisn hefur átt á brattan að sækja í kosningabaráttunni þar sem fylgi flokksins mælist ansi rýrt í skoðanakönnunum. 


Tengdar fréttir

VG enn langstærst en Píratar tapa fylgi

Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur standa nánast í stað milli vikna. Píratar tapa tæplega þremur prósentustigum milli vikna. Viðreisn og Björt framtíð áfram á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×