Skoðun

Fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna

Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign skrifar
Forseti Íslands tók í júlí 2015 við undirskriftum 53.571 kosningabærs Íslendings þar sem skorað var á hann að „…vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir og úthlutar fiskveiðiauðlindinni til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnar­skrá og þjóðinni hefur ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra“.

Frá því að þessi áskorun var afhent hefur Alþingi hvorki sett ákvæði um þjóðareign á auðlindinni í stjórnarskrá (sem 80% kjósenda kröfðust í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. okt. 2012) né tryggt með öðru móti að þjóðin fái fullt gjald fyrir afnot fiskimiðanna við landið. Í komandi kosningunum gefst kjósendum enn eitt tækifærið til að krefja stjórnmálaflokkana svara um hvernig þeir hyggjast halda á hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.

Stjórnmálaflokkarnir hafa allir í orði kveðnu sagst vilja tryggja þjóðareign auðlindanna, en mestu skiptir að ákvæðið sem fer í stjórnar­skrá kveði skýrt á um eign þjóðarinnar, þannig að allur afnotaréttur auðlinda sé í umboði hennar og honum verði einungis ráðstafað tímabundið og þá gegn fullu gjaldi.

Útboð tryggir sátt um sjávarútveginn

Gjald fyrir afnot af auðlindum er ekki skattur sem er lagður á eftir efnum og aðstæðum. Þvert á móti er auðlindagjald eins og hvert það gjald sem þarf að inna af hendi fyrir önnur aðföng. Engum dytti í hug að kalla greiðslu fyrir olíu á skipin skatt, jafnvel þótt þjóðin ætti olíuna, eins og tilfellið er hjá Norðmönnum.

Um mikilvægi þess að sátt ríki um sjávarútveginn þarf ekki að fjölyrða. Hlutverk sjávarútvegs í íslensku samfélagi er óumdeilt og mikið til vinnandi að friður ríki um atvinnugreinina. Útboð aflaheimilda er eina færa leiðin til að komast að raun um hvað telst fullt gjald. Aðrar leiðir til gjaldtöku munu ávallt valda deilum og ósætti, sem er afar óheppilegt fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Með útboðum greiðir útgerðin það sem henni þykir sjálfri viðráðanlegt gjald, og væntanlega réttlátt, fyrir afnot af auðlindinni. Slíkt stuðlar að sátt um sjávarútveginn.

Agnar K. Þorsteinsson

Bolli Héðinsson

Guðrún Pétursdóttir

Jón Sigurðsson

Jón Steinsson

Þorkell Helgason

Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar Þjóðareign.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×