Viðskipti innlent

Bakkavör á markað í nóvember

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stefnt er að því að skrá minnst fjórðung hlutabréfa í matvælarisanum Bakkavör, sem er í meirihlutaeigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona.
Stefnt er að því að skrá minnst fjórðung hlutabréfa í matvælarisanum Bakkavör, sem er í meirihlutaeigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona.
Stefnt er að því að skrá minnst fjórðung hlutabréfa í matvælarisanum Bakkavör, sem er í meirihlutaeigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, á hlutabréfamarkað í Lundúnum í byrjun nóvembermánaðar. Miðað við fyrirhugað útboðsgengi gæti virði Bakkavarar numið allt 1,5 milljörðum punda sem jafngildir um 208 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að stefnt sé að því að auka hlutafé um 100 milljónir punda auk þess sem stærstu eigendur félagsins, Ágúst og Lýður og bandaríski vogunarsjóðurinn Baupost, hafi hug á því að selja hluta af bréfum sínum.

Markmið hlutafjárútboðsins er að grynnka á skuldum Bakkavarar og auka fjárfestingargetu félagsins. Tekjur þess námu tæpum 1,8 milljörðum punda í fyrra og var hagnaður fyrir skatta liðlega 63 milljónir punda.

Nýverið var greint frá því að Lýður, sem stofnaði Bakkavör ásamt bróður sínum fyrir 31 ári, hefði í hyggju að stíga til hliðar sem stjórnarformaður félagsins. Mun Simon Burke, fyrrverandi forstjóri Hamleys, taka við starfinu. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×