Viðskipti innlent

Katrín Helga skipuð í nýja stjórn Samkeppniseftirlitsins

Hörður Ægisson skrifar
Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögmaður og fyrrverandi eigandi að BBA Legal.
Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögmaður og fyrrverandi eigandi að BBA Legal.
Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi aðstoðarmaður Ólafar Nordal, þáverandi dómsmálaráðherra, hefur verið skipuð formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins. Þá hafa þau Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögmaður og fyrrverandi eigandi að BBA Legal, og Sveinn Agnarsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, einnig tekið sæti í stjórninni.

Það er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem skipaði nýja stjórn Samkeppniseftirlitsins til næstu fjögurra ára. Kristín hefur áður setið í stjórn Samkeppniseftirlitsins en hún hafði verið formaður stjórnarinnar í rúmlega eitt ár þegar hún var ráðin aðstoðarmaður Ólafar í árslok 2014.

Stjórn Samkeppniseftirlitsins var áður skipuð þeim Guðrúnu Ragnarsdóttur, sem var jafnframt formaður, Ástu Dís Óladóttur og Eyvindi G. Gunnarssyni.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×