Skoðun

Friðarbylting unga fólksins

Dagur B. Eggertsson og Jón Atli Benediktsson skrifar
Það þarf ungt fólk til að ganga gegn hefðum og venjum og knýja fram samfélagsbreytingar til framtíðar. Það er því mikilvægt að stuðla að samtali þvert á kynslóðir með því að ljá ungu fólki rödd og veita því hlutdeild í úrlausnum þeirra flóknu áskorana sem við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag.

Í hefðbundinni friðarumræðu á alþjóðavísu hefur jafnan verið horft fram hjá því hlutverki sem ungt fólk getur gegnt í friðaruppbyggingu. Ályktun Sameinuðu þjóðanna frá því í desember 2015 um ungt fólk, frið og öryggi hefur þó umbylt þeirri umræðu, og hefur skapað umgjörð um framlag ungs fólks til friðaruppbyggingar og baráttunnar gegn ofbeldisfullum öfgastefnum.

Aukin menntun og valdefling ungs fólks skiptir sköpum fyrir þróun heimsmála næstu árin og í því tilliti er mikilvægt að fræðasamfélagið og borgin skapi vettvang fyrir upplýsta umræðu um friðarmál hér á landi. Þar gegnir Höfði friðarsetur mikilvægu hlutverki en Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands standa að setrinu.

Áskoranir heimsmála kalla á víðtækt samstarf og samtal. Höfði friðarsetur býður til þess samtals í dag á alþjóðlegri ráðstefnu þar sem leiddir eru saman heimsþekktir leiðtogar og aðgerðasinnar í friðarmálum. Tawakkol Karman, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011 og blaðamaður frá Jemen, sem hefur beitt sér bæði fyrir tjáningarfrelsi og bættri stöðu kvenna, er þar meðal flytjenda ásamt Faten Mahdi Al-Hussaini, baráttukonu gegn ofbeldisfullum öfgahópum og talskonu norska ríkissjónvarpsins gegn hatursorðræðu í Noregi, auk annarra frábærra þátttakenda.

Friðarvika í Reykjavík er nú orðinn að föstum viðburði í byrjun október, þegar Friðarsúlan í Viðey er tendruð til að minna okkur á von Yoko Ono og Johns Lennon um heimsfrið. Okkar von er að framlag Höfða friðarseturs með árlegri friðarráðstefnu geti orðið til þess að festa Reykjavíkurborg enn frekar í sessi sem borg friðar á alþjóðavísu.

 

Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri.

Jón Atli Benediktsson er rektor Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×