Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem leiðir lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, fagnaði ákaft á kosningavöku flokksins sem haldin var í Iðnó.Vísir.is/ Laufey Elíasdóttir
Vinstrihreyfingin – grænt framboð bætir við sig manni inn á þing þegar lokatölur úr Suðvesturkjördæmi liggja fyrir. Ólafur Þór Gunnarsson sem er í öðru sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi er sá þingmaður. Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem skipar fimmta sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, mælist ekki inni þegar atkvæðin eru talin.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 30,89% atkvæða í Suðvesturkjördæmi og er jafnframt stærsti flokkurinn. Á eftir honum eru Vinstri græn sem hlutu 13,62% atkvæða. Samfylkingin hlaut 12, 15% atkvæða en Guðmundur Andri Thorsson, sem leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, er nýr þingmaður þegar atkvæði kjördæmisins eru talin.
Hinn nýstofnaði Miðflokkur hlaut gott gengi í Suðvesturkjördæmi og endaði með 9,48% atkvæða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, átti einnig góðu gengi að fagna en flokkurinn hlaut 9, 47 samkvæmt lokatölum úr kjördæminu. Píratar fylgdu fast á eftir með 8,3% atkvæða og því næst Framsóknarflokkur með 7,94% atkvæða.
Flokkur fólksins hlaut 6,49% atkvæða. Björt framtíð hlaut 1,52% atkvæða og Alþýðufylkingin endaði með 0,13% atkvæða þegar lokatölur liggja fyrir.