Handbolti

Guðjón Valur: Hefði verið auðveldara að fela sig og gefast upp

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón Valur skýtur að marki í dag
Guðjón Valur skýtur að marki í dag Vísir/Laufey
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæsti leikmaður Íslands í dag þegar liðið beið lægri hlut fyrir Svíum, 24-27, í vináttuleik í Laugardalshöll í dag.

Guðjón Valur var að vonum ósáttur við úrslitin en tekur engu að síður margt jákvætt úr leiknum.

„Aldrei sáttir við tap en liðið sýndi karakter eftir erfiðar fyrstu tuttugu mínútur. Við vorum að reyna gera okkar besta,” sagði Guðjón í samtali við Vísi í leikslok.

„Ekki sáttir við tap, en ég er ánægður með viðhorfið hjá strákunum og hvernig þeir komu í leikinn,” en hvað gerðist í byrjun þar sem liðið lenti sjö mörkum undir?

„Ég held að það sé bara óöryggi og ekkert annað. Menn eru að læra inn á landsliðið; ný kerfi og eru að koma úr félagsliðum þar sem þeir kunna allt saman. Nú eru þeir með menn vinstra og hægra megin við sig sem þeir hafa ekki spilað með áður, hvorki í vörn né sókn.”

„Þetta tekur tíma að stilla svoleiðis af og ég er mjög ánægður með hvernig strákarnir komu til baka þegar það hefði verið auðveldara að fela sig og gefast upp. Ég er mjög ánægður með að þeir gerðu það ekki.”

Margir ungir leikmenn, eins og tíðrætt hefur verið um, eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og fyrirliðinn og sá elsti í liðinu var ánægður með þá.

„Heldur betur ánægður með þá. Arnar og Ómar eru svo ekki gamlir og Janus hefur ekkert verið að spila í fleiri ár með landsliðinu. Það eru mjög margir ungir og þess vegna er þessi vika svo kærkomin; bæði æfingar og leikir sem hafa verið góðir upp á það að slípa okkur saman.”

Er ekki framtíðin bara björt? „Það ætla ég að vona, allavega hjá þeim!” sagði glaðbeittur fyrirliðinn í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×