Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Svíþjóð 31- 29 | Svíarnir lagðir í Höllinni

Benedikt Grétarsson skrifar
Janus Daði Smárason á ferðinni í kvöld.
Janus Daði Smárason á ferðinni í kvöld. vísir/eyþór
Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann Svíþjóð í æfingaleik sem fram fór í Laugardalshöll í kvöld. Lokatölur 31-29 en Íslendingar höfðu þriggja marka foystu að loknum fyrri hálfleik, 18-15.

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur Íslendinga með 6 mörk og Björgvin Páll Gústavsson varði sex skot í markinu. Markahæstur í liði Svíþjóðar var Fredric Petterson með 6 mörk.

Myndasyrpu frá Eyþóri Árnasyni, ljósmyndara Fréttablaðsins og Vísis, má sjá hér neðst í umfjölluninni.

Svíar hafa afar sterku liði á að skipa en hinn íslenski Kristján Andrésson þjálfar liðið. Nokkra sterka leikmenn vantaði í íslenska liðið og munaði þar mest um Aron Pálmarsson sem gaf ekki kost á sér af persónulegum ástæðum.

Gestirnir byrjuðu betur og voru með þriggja marka forystu 6-9 þegar um 15 mínútur voru liðnar. Þá hrukku strákarnir í gang sóknarlega og leiddir áfram af Ólafi Guðmundssyni, náðu strákarnir undirtökunum. Ólafur lék afar vel í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk, flest með þrumuskotum.

Þessi ágætu tök skiluðu okkar mönnum þriggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 18-15.

Strákarnir voru ekkert á því að láta þessa forystu af hendi í seinni hálfleiknum. Innkoma ungra leikmanna var mjög góð og með baráttuna að vopni, héldu okkar menn Svíumm í þægilegri fjarlægð allt til loka.

Bjarki Már kom mjög sterkur inn í vinstra hornið fyrir Guðjón Val, Ýmir var sterkur varnarlega og þannig mætti lengi telja. Flottur sigur og gefur tilefni til bjartsýni á komandi mánuðum og árum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson spilaði sinn fyrsta landsleik.vísir/eyþór
Af hverju vann Ísland leikinn?

Strákarnir léku einfaldlega betur en Svíar. Nánast allir sem fengu að spreyta sig stóðu vel fyrir sínu og breiddin er klárlega að aukast. Leikgleðin var áberandi og menn tóku vel á Svíum, þrátt fyrir að um vináttuleik hafi verið að ræða.

Vörnin small á réttum stundum og sóknarleikurinn var á köflum prýðilegur gegn sterku varnarliði Svía.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Guðmundsson var öflugur í vörn og sókn en meiddist á baki í seinni hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var með því betra sem kappinn hefur sýnt sóknarlega með landsliðinu en Svíar réðu ekkert við þrumuskot Hafnfirðingsins.

Janus Daði var alltaf að leita að glufum og stýrði leiknum vel. Inkoma Bjarka, Gísla Þorgeirs, Ómars Inga og Daníels hlýtur svo að gleðja Geir Sveinsson mjög mikið.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Íslands var alls ekki á pari í leiknum. Það verður þó að koma fram að mörg þeirra skota sem markverðirnir fengu á sig voru úr afar opnum færum. Þessi hluti verður þó að batna töluvert fyrir næsta leik.

Það gekk líka frekar illa að keyra upp alvöru stemmingu í höllinni. Kannski var það bara lagalistinn sem fékk að hljóma í leikhléum og í hálfleik, hver veit? Gerum betur á laugardaginn!

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur á Laugardalshöllinni á laugardaginn. Það er um að gera að hvetja fólk til að kjósa rétt og mæta á svæðið. Strákarnir sýndu í kvöld að það er ýmislegt í liðið spunnið og verðskulda fulla Laugardalshöll af áhorfendum.

Geir Sveinsson fer yfir málin í leikhlé.vísir/eyþór
Geir: Þetta er ánægjulegur hausverkur

Landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson var ánægður eftir 31-29 sigur Íslands gegn Svíþjóð.  Íslenska liðið lék vel og mæta Svíum aftur á laugardaginn.

„Maður er alltaf sáttur þegar maður vinnur og ég reyndar strax farinn að velta fyrir mér hvað mætti gera betur. Það er samt mikið af jákvæðum pnktum og við gátum rúllað liðinu eins og við ætluðum okkur að gera.“

Margir ungir leikmenn fengu að spreyta sig í leiknum og má þar nefna að Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk sínar fyrstu mínútur með A-landsliðinu.

„Ég viðurkenni að þetta var pínu óvissa að taka þessa stráka inn á þessu stigi og sjá aðeins hvar þeir stæðu. Mig langaði samt að sjá þá og þeir litu þokkalega út á æfingu þar sem þeir lögðu sig mikið fram og æfðu vel.

Þannig unnu menn sér það inn að fá tækifæri og það er í raun það sem ég sem þjálfari bið um, að menn leggi sig fram. Hvort að allt gangi svo upp, það er allt annað mál. Heilt yfir, þá svöruðu strákarnir kallinu vel.“

Strákarnir börðu vel á Svíum og stemmingin var góð í hópnum. Geir segir mikilvægt að taka alla leiki alvarlega, alveg sama hver andstæðingurinn er og hvort að um vináttuleik sé að ræða.

„Við hömruðum á þessu alla vikuna, að þó að um vináttuleik sé að ræða, þá er þetta alvöru leikur  sem við erum að spila hérna. Það er komið hérna flott lið sem hefur mjög góða leikmenn innanborðs. Þarna eru leikmenn sem eru að spila í sterkustu deild í heimi þannig að strákarnir eiga að nýta sér komu slíkra manna til að bæta sig.“

En er kallinn í brúnni ekkert að fá hausverk yfir komandi landsliðsvali, nú þegar breiddin era ð aukast?

„Nei, ég sagði nú einhversstaðar að þetta væri bara ánægjulegur hausverkur. Það gleður mig að menn séu að svara kallinu og það er mjög mikilvægt að menn skynji það að sénsinn er til staðar og alls ekkert ómögulegt að komast inn í landsliðið.

Ég hef sagt það áður að í svolítið langan tíma var verið að keyra mikið á sama mannskapnum í landsliðinu og kannski skiljanlega. Það var erfitt að skipta út mönnum því að þetta voru einfaldlega okkar bestu handboltamenn. Þetta gerði það að verkum að það var ansi erfitt að komast inn í liðið.

Nú sjá menn að það er möguleiki að fá tækifærið og vonandi hvetur það menn áfram,“ sagði Geir að lokum

Kristján Andrésson var ekki sáttur með sína menn í kvöld.vísir/eyþór
Kristján: Ísland var betra liðið

„Það er alltaf súrt að tapa en Íslendingar voru bara betri. Ég er svekktur yfir frammistöðu varnarinnar í kvöld. Við náðum ekki að stoppa skotin fyrir utan og brjóta nógu mikið á leikmönnum Íslands,“ sagði Kristján Andrésson, hinn íslenski þjálfari Svíþjóðar.

Varnarleikur og ekki síst góð markvarsla hafa verið aðalsmerki sænska landsliðsins um áraraðir en þessir þættir voru aldrei á pari hjá Svíum í leiknum.

„Nei nei, við vorum yfir 9-6 en samt fannst mér vörn og markvarsla ekki vera að virka. Við náðum engum kontakt en það kemur nú kannski til vegna þess að Íslendingar voru að spila mjög vel.“

En voru íslensku strákarnir að koma Kristjáni eitthvað á óvart?

„Nei, ég hef nú séð mikið af leikmönnum í þessu íslenska liði. Þeir voru flestir að gera fína hluti í kvöld. Ómar Ingi spilar vel og Daníel Ingason skorar mjög got mark í lok leiksins. Ég verð bara að hrósa íslenska liðinu og þeir voru allir að standa sig vel.“

Fyrrverandi landsliðsmaður islands er með það á hreinu hvað þarf að batna hjá sænska liðinu á laugardaginn.

Við þurfum fyrst og fremst að ná fleiri stoppum í vörninni hjá okkur. Svo þarf sóknarleikurinn að vera hraðari og við þurfum fleiri hraðupphlaup. Ég er þeirrar skoðunar að við getum gert miklu betur en við sýndum í kvöld. Vonandi verður það nóg á laugardaginn,“ sagði hinn afskaplega yfirvegaði Kristján Andrésson.

vísir/eyþór
vísir
vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/eyþór
vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira