Skoðun

Eflum menntun

Adda María Jóhannsdóttir skrifar
Menntamál eru efnahagsmál. Þau eru grunnurinn að framtíðinni. Það er ámælisvert hversu fjársveltir skólarnir okkar hafa verið á undanförnum árum og það þarf að laga.

Kennaraskortur í leik- og grunnskólum

Við þekkjum öll stöðuna í leikskólunum okkar þar sem mikil vöntun er á fagmenntuðum leikskólakennurum. Öllum er ljóst að það sem þarf eru betri laun. Öðruvísi fáum við ekki fólk til að starfa á þessum gríðarlega mikilvæga vettvangi, líklega þeim mikilvægasta af öllum. Það er einnig áhyggjuefni hversu margir sem hafa aflað sér kennaramenntunar á grunnskólastigi kjósa að starfa við önnur störf en kennslu. Í grunnskólunum okkar er mikið álag á starfsfólki enda hefur starfið tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og mikilvægt að úrræðin séu í samræmi við það.

Fjársveltir framhalds- og háskólar

Framhaldsskólarnir okkar eru undirfjármagnaðir. Staðan þar er orðin grafalvarleg enda hefur verið skorið inn að beini. Sá sparnaður sem hlaust af styttingu framhaldsskólans hefur ekki skilað sér til skólanna eins og til stóð og eru þeir komnir að þolmörkum. Í raun hafa þeir verið við þau mörk um nokkurra ára skeið og ef ekki verður gripið til aðgerða mun það bitna á námi ungmenna í landinu.

Sömu sögu má segja um háskólana okkar. Þar skortir sárlega fjármagn ekki síst til rannsókna. Við þurfum að hækka framlög til háskóla til að standast áfram samjöfnuð við alþjóðlega háskóla í kennslu og rannsóknarstarfi.

Sókn í menntamálum

Samfylkingin vill koma á fót samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga, skólafólks, nemenda, foreldra og aðila vinnumarkaðarins, sem hafi það hlutverk að móta tillögur að umbótum í menntamálum með það fyrir augum að að efla skólastarf og gera kennarastarfið að vel launuðum og eftirsóknarverðum starfsvettvangi.

Öflugt menntakerfi er fjárfesting í framtíðar hagvexti og forsenda nýsköpunar. Hættum að skera menntakerfið niður og byrjum að fjárfesta í því.

Höfundur er framhaldsskólakennari, skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×