Handbolti

Tuttugu ára aldursmunur á leikmönnum A-landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Gísli Kristjánsson.
Guðjón Valur Sigurðsson og Gísli Kristjánsson. Mynd/HSÍ
Það munar rétt tæplega tuttugu árum á tveimur leikmönnum íslenska A-landsliðsins í handbolta sem er að fara mæta Svíum í tveimur vináttulandsleikjum í Laugardalshöllinni á næstu dögum.

Þetta eru þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Það munar nákvæmlega á þeim 19 árum, 11 mánuðum og 22 dögum.



Guðjón Valur Sigurðsson er fyrirliði og aldursforseti íslenska liðsins. Hann hélt upp á 38 ára afmælið sitt í ágúst síðastliðnum.

FH-ingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson er fæddur 30. júlí 1999 og varð því átján ára gamall í sumar.

Guðjón Valur lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Ítalíu 15. desember 1999 en þá var Gísli aðeins fjögurra mánaða og fimmtán daga.

Guðjón Valur er núna kominn með 1781 mark í 339 landsleikjum. Gísli mun spila sína fyrstu A-landsleiki á móti Svíum í Laugardalshöll á fimmtudag og laugardag.

Guðjón Valur hefur verið í að verða átján ár í íslenska landsliðinu en hann náði þó ekki að leika með Kristjáni Arasyni föður Gísla. Kristján Arason spilaði á sínum tíma 238 landsleiki og skoraði í þeim 1089 mörk.

Kristján Arason er ásamt Guðjóni Val og Ólafi Stefánssyni meðlimur í þúsund marka klúbbi íslenska A-landsliðsins í handbolta.

Leikirnir við Svía fara fram i Laugardalshöllinni. Sá fyrri fimmtudaginn 26. október klukkan 19.30 og sá síðari laugardaginn 28. október klukkan 14.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×