Erlent

Aðskilnaðarsinnar í Katalóníu myndu halda völdum

Atli Ísleifsson skrifar
Aðskilnaðarsinnar myndu samkvæmt könnuninni fá 47,9 prósent atkvæða.
Aðskilnaðarsinnar myndu samkvæmt könnuninni fá 47,9 prósent atkvæða. Vísir/AFP
Aðskilnaðarsinnar myndu halda völdum á katalónska héraðsþinginu ef gengið yrði til kosninga nú. Þetta er niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar sem birt er í El Periódico.

Spænsk stjórnvöld hafa lýst því yfir að 155. grein stjórnarskrár landsins verði líklega virkjuð nú í vikunni sem mun svipta Katalóníu sjálfstjórn sinni. Þá yrði sömuleiðis boðað til nýrra kosninga til héraðsþingsins.

Í síðustu kosningum til héraðsþingsins hlaut bandalag aðskilnaðarsinna, Junts pel Sí (Saman um já), með stuðningi róttæka vinstriflokksins CUP nauman meirihluta á þinginu, þó án meirihluta atkvæða.

Könnun El Periódico bendir til að niðurstöður kosninganna yrðu keimlíkar þeim síðustu, yrði gengið til kosninga í dag.

Aðskilnaðarsinnar myndu samkvæmt könnuninni fá 47,9 prósent atkvæða, en þeir fengu 47,8 prósent í kosningunum 2015. Slík niðurstaða myndi skila þeim 70 til 73 þingsætum af 135 mögulegum. Þeir eru nú með 72 þingsæti.

Helsti munurinn yrði skipting þingsæta innan bandalaganna. Þannig myndi vinstriflokkurinn ERC, undir stjórn varaforsetans Oriol Junqueras, verða stærsti flokkurinn og með 28,1 prósent fylgi. PDECAT, flokkur forsetans Carles Puigdemont, fengi tólf prósent fylgi.

Spænski stjórnarflokkurinn Partido Popular, sem hlaut 8,5 prósent fylgi í kosningunum 2015, fengi samkvæmt könnuninni 7,5 prósent fylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×