Skoðun

Síðasta aðvörun

Björn Berg Gunnarsson skrifar
Það er allt lagt upp í hendurnar á okkur en samt virðast karlmenn eiga í stökustu vandræðum með jólagjafirnar ár eftir ár.

Upp komst um þessa óheppilegu hegðun okkar þegar Google hóf að veita aðgang að leitarniðurstöðum kynjanna. Frá febrúar til desember er leitarstrengurinn „gjöf fyrir eiginmanninn“ helmingi meira notaður en „gjöf fyrir eiginkonuna“. Undirbúningurinn hefst greinilega snemma þar á bæ. Í desember gerir örvænting karla þó vart við sig og nær hámarki vikuna fyrir jól þegar 60% fleiri leita að hugmyndum að jólagjöfum fyrir eiginkonuna og þrefalt fleiri karlar slá inn leitarstrenginn en í nóvember.

Sá sem þarf uppástungur frá Google örfáum dögum fyrir jól er í áhættuhópi með að enda á að gefa frúnni Vegahandbókina og börnunum púsluspil af næstu bensínstöð. Það er öllum fyrir bestu að við drífum í þessu og klárum gjafainnkaupin áður en gripið er í hið árlega „ég þarf aðeins að bregða mér út“ trikk á aðfangadagsmorgun.

Það er nóvember. Singles' day er búinn, Svartur föstudagur liðinn og Cyber Monday var í fyrradag. Við höfum fengið fjölmörg tækifæri. Vefverslun hefur aukist gríðarlega ár frá ári og þægindin orðin slík að við þurfum ekki einu sinni að standa upp úr sófunum til að láta senda okkur pakkana, innpakkaða með korti, heim að dyrum.

Konan þín keypti jólagjöfina þína sennilega á útsölunum í janúar. Þú ert örugglega búinn að rekast á hana heima en áttaðir þig ekki á því. Það er allt í lagi að vera tímanlega. Þetta er síðasta aðvörunin.

Höfundur er fræðslustjóri Íslandsbanka.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Skoðun

Sjá meira


×