Enski boltinn

Rooney hrósaði David Unsworth þrátt fyrir 5-1 skell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Sigurðsson, Wayne Rooney og Leighton Baines.
Gylfi Sigurðsson, Wayne Rooney og Leighton Baines. Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrirliði Everton, talaði vel um knattspyrnustjórann David Unsworth þrátt fyrir 5-1 skell á móti Atalanta á heimavelli í gær.

David Unsworth hefur stýrt Everton í sex leikjum síðan að Ronaldo Koeman var rekinn og Unsworth tók tímabundið við. Liðið hefur tapað fjórum af þessum leikjum og hefur fengið á sig sextán mörk í þeim.

Í gærkvöldi var Everton liðið niðurlægt á heimavelli í fjögurra marka tapi á móti ítalska liðinu Atalanta en David Unsworth hvíldi Gylfa Þór Sigurðsson í leiknum á Goodison Park í gær.

Hann spilaði hinsvegar Wayne Rooney sem reyndi að vera jákvæður í garð David Unsworth þegar hann var í viðtali eftir þetta stóra tap á heimavelli.

Marco Silva, stjóri Watford, hefur hafnað því að taka við liðinu og leitin hefur enn ekki borið árangur. „Stjórnin þarf að taka ákvörðun og ég er viss um að menn eru að vinna í þessu,“ sagði Wayne Rooney við BBC.

„Síðan að David Unsworth tók við þá hefur verið frábært andrúmsloft meðal leikmannanna og við höfum náð nokkrum jákvæðum úrslitum,“ sagði Rooney.

Eini sigurinn undir stjórn David Unsworth var 3-2 endurkomusigur á Watford.

„Það var ekkert undir í þessum leik nema kannski stoltið. Við verðum allir að taka á okkur ábyrgð. Stjóraskiptin hafa haft jákvæð áhrif á frammistöðuna ef við tökum þennan leik ekki með,“ sagði Rooney.

„Við verðum að halda áfram að safna stigum í úrvalsdeildinni til að koma okkur upp töfluna,“ sagði Rooney.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×