Það skýrist á morgun hvort formenn stjórnarmyndunarflokkanna klára stjórnarsáttmála um helgina eða hvort það dregst fram yfir helgi. Formennirnir hafa fundað í Ráðherrabústaðnum í dag og miðar ágætlega að þeirra sögn.
Ef hins vegar á að klára vinnuna á næstu tveimur dögum þyrfti samkvæmt lögum Vinstri grænna að boða flokksráð saman á morgun til að það geti komið saman til fundar á laugardag til að fara yfir stjórnarsáttmálann.
Samkvæmt heimildum fréttastofunnar gæti lokafrágangur allt eins dregist fram yfir helgi og ræður framvinda mála í dag og á morgun miklu um framhaldið. Þá getur veður spilað inn í því áhersla er lögð á að fulltrúar í stofnunum flokkanna af landsbyggðinni komist til fundar þegar þar að kemur en spáð er leiðindarveðri á norður- og austurhluta landsins á næstu dögum.

