Innlent

Formennirnir funduðu fram á kvöld

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá upphafi fundar formannanna í morgun.
Frá upphafi fundar formannanna í morgun. vísir/ernir
Formenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna funduðu fram á kvöld í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna sem nú hafa staðið í viku. Fundur formannanna hófst klukkan 9:30 í morgun og lauk á áttunda tímanum í kvöld.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að viðræðurnar gangi enn ágætlega. Þó er enn ekki kominn nein dagsetning á það hvenær málefnasamningur mun liggja fyrir.

„Við vorum fyrst og fremst að fara yfir málefnaflokkanna og munum væntanlega halda því áfram á morgun og fá þá til okkar fleiri sérfræðinga,“ segir Sigurður Ingi en í liðinni viku fengu formennirnir meðal annars til sín aðila vinnumarkaðarins og landlækni.

Formlegar viðræður flokkanna hófust síðastliðinn þriðjudag en óformlegar viðræður þeirra höfðu þá staðið í um viku. Enginn fer með formlegt stjórnarmyndunarumboð í viðræðunum en komið hefur fram að lagt sé upp með að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði forsætisráðherra. Á laugardaginn upplýsti hún Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um gang viðræðnanna.


Tengdar fréttir

Sjá til enda en ætluðu að vera komin lengra

Formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bjuggust við að vera komin lengra í stjórnarmyndunarviðræðum á þessum tíma en raunin er. Þau segja biðina útskýrast af því að þau vilji vanda til verka.

Gæti tekið þessa viku að skrifa stjórnarsáttmálann

Formenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna héldu áfram að skrifa málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar í ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í dag en sú vinna gæti tekið alla þessa viku. Ekki er búið að skipta ráðuneytum á milli flokkanna en gengið er út frá því að Katrín Jakobsdóttir verði forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×