Innlent

Átök í borg og í landsmálum í Víglínunni

Atli Ísleifsson skrifar
Nú þegar hálft ár er til sveitarstjórnarkosninga er tekist á um hvort Reykjavíkurborg er vel eða illa rekin undir forystu Dags B. Eggertssonar í samstarfi Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar. Mikil uppbygging á sér stað í hjarta borgarinnar en á sama tíma búa um tuttugu manns á tjaldstæðinu í Laugardal við þröngan kost.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Halldór Halldórsson, fráfarandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, koma í Víglínuna til Heimis Más Péturssonar fréttamanns á Stöð 2 og Vísi í dag.

Ný ríkisstjórn hefur tekið saman sitt fyrsta fjárlagafrumvarp sem nú er í frágangi í öllum ráðuneytum og verður lagt fram á Alþingi þegar það kemur saman á fimmtudag í fyrsta sinn frá því í september. Stjórn og stjórnarandstaða takast á um skipan nefnda og formennsku í þeim. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur boðar ný vinnubrögð í samskiptum við Alþingi en stjórnarandstaðan virðist ekki á því máli að byrjunin sé góð.

Birgir Ármannsson og Oddný G. Harðardóttir þingflokksformenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mæta í Víglínuna til að ræða þessi mál og störfin framundan á Alþingi í vetur.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi kl 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×