Reikningur Bretlands vegna útlöngu þess úr Evrópusambandsins verður á bilinu 35 og 39 milljarðar punda. Þetta sagði talsmaður Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í morgun, en upphæðin nemur milli 4,9 þúsund milljarða og 5,5 þúsund milljarða króna á núvirði.
May og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, tilkynntu í morgun að samkomulag hefði náðst um tiltekin atriði í Brexit-viðræðunum sem gæfu viðsemjendum færi á að færa viðræðurnar á næsta stig.
Samkomulagið sem kynnt var í morgun er fimmtán síðna plagg og í 96 liðum. Þar er greint frá hvaða réttindi ríkisborgarar aðildarríkja ESB skuli hafa í Bretlandi og Bretar í aðildarríkjum ESB eftir útgöngu, fyrirkomulag á landamærum Írlands og Norður-Írlands og margt fleira. Bæði bresk stjórnvöld og ESB vilja viðhalda frjálsu flæði varaá landamærunum, án landamæraeftirlits, af ótta við að slíkt gæti leitt til afturhvarfs til átaka á svæðinu.
Upphæðin háð hagvexti og fleiru
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, sagðist ekki vilja nefna neina ákveðna tölu sem Bretar þyrftu að greiða vegna útgöngunnar þar sem hún væri meðal annars háð hagvexti og fleiri þáttum. Barnier sagði þó að útgöngusamningurinn verði að vera tilbúinn í október 2018 og að mjög mikil vinna væri enn fyrir höndum.
Bresk stjórnvöld vilja að aðildarríki ESB nái sem fyrst samkomulagi um aðlögunartímabil vegna útgöngunnar, auk þess að samkomulag náist sem fyrst um framtíðarviðskiptasamband Bretlands og ESB.
Deilur um reikning vegna útgöngunnar hefur verið einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum til þessa. Í samkomulaginu sem kynnt var í morgun kemur fram að Bretar muni greiða sínar skuldbindingar fram til loka árs 2020.
Stefnt er að því að Bretland verði ekki lengur aðildarríki ESB þann 29. mars 2019.
Reikningur Breta vegna Brexit rúmir fimm þúsund milljarðar króna
Tengdar fréttir
Komust að samkomulagi í Brexit-viðræðunum
Nægileg framvinda hefur náðst í Brexit viðræðum Breta og Evrópusambandsins til að færa þær á annað stig.