Erlent

Vísinda­menn segja mikil­vægt að vanda valið á þunglyndislyfjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það getur skipt miklu máli hvaða lyf eru valin.
Það getur skipt miklu máli hvaða lyf eru valin. Getty

Vísindamenn við King's College í Lundúnum og University of Oxford hafa birt niðurstöður rannsóknar þar sem þeir flokka þungþyndislyf og raða eftir aukaverkunum og alvarleika þeirra.

Þeir hvetja til þess að vandað sé til valsins á þunglyndislyfjum, með tilliti til mögulegra aukaverkana. Fólk eigi alls ekki að hætta á þeim lyfjum sem það sé á núna, en ef til vill að ráðfæra sig við lækninn sinn.

Vísindamennirnir skoðuðu 151 rannsókn á 30 algengum þunglyndslyfjum, sem náðu til yfir 58.500 sjúklinga. Þeir benda á að það eru ekki allir sem upplifa aukaverkanir en athuganir þeirra leiddu í ljós að sum lyf leiddu til allt að tveggja kílóa þyngdaraukningar, á meðan önnur leiddu til tveggja kílóa þyngdartaps. 

Þá reyndust lyfin hafa ólík áhrif á bæði blóðþrýsting og púls.

Vísindamennirnir segja þetta benda til þess að jafnvel þótt fólk sé með sömu greiningu, sé mikilvægt að horfa á einstaklinginn þegar lyf eru valinn. Aðrir heilsuþættir ættu þar að ráða úrslitum.

Ekki sé um að ræða að sum lyf séu „góð“ og önnur „vond“, heldur henti þau í mismunandi aðstæðum. Þeir benda á í þessu samhengi að það sé ákveðið vandamál að þrýst hafi verið á uppáskriftir ódýrari samheitalyfja.

Þannig nái 85 prósent allra uppáskrifta þunglyndislyfja á Bretlandi aðeins til þriggja lyfja; citalopram, sertraline og fluoxetine.

Unnið er að þróun ókeypis tóls á netinu til að hjálpa læknum og sjúklingum að velja rétta lyfið.

BBC fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×