Erlent

Mikill hiti í síðustu kappræðunum fyrir kosningar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Síðustu kappræðurnar fyrir kosningar fóru fram í gær.
Síðustu kappræðurnar fyrir kosningar fóru fram í gær. Getty/Hiroko Masuike

Mikill hiti var í mönnum þegar þremenningarnir sem sækjast eftir því að verða næsti borgarstjóri New York komu saman í kappræðum í gær. 

Demókratinn Zohran Mamdani og repúblikaninn Curtis Sliwa drógu upp ásakanir á hendur hinum óháða Andrew Cuomo um kynferðislega áreitni og þá var Mamdani spurður út í mynd af honum og úgönskum baráttumanni gegn réttindum hinsegin fólks.

Borgarstjórakosningarnar fara fram þriðjudaginn 4. nóvember næstkomandi en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst um helgina.

Nýjustu kannanir gefa til kynna að Mamdani muni fara með sigur úr býtum ef allir þrír verða í framboði. Mamdani hefur verið að mælast með yfir 45 prósent fylgi, Cuomo með um 30 prósent fylgi og Sliwa með um og yfir 15 prósent.

Staðan breytist hins vegar töluvert ef Sliwa myndi hætta; fylgið færi  yfir til Cuomo og verulega myndi draga saman með honum og Mamdani.

Frambjóðendurnir voru meðal annars spurðir út í Donald Trump Bandaríkjaforseta og hvernig þeir myndu eiga samskipti við hann. Sliwa sagði að það þyrfti að semja við forsetann, á meðan Mamdani sakaði Cuomo um að vera strengjabrúða Trump.

Sjálfur sagðist Cuomo vera eini kandídatinn sem hefði reynslu af því að fást við forsetann. „Hann potar fingrinum í brjóstið á þér og þú þarft að pota í hann til baka,“ sagði ríkisstjórninn fyrrverandi.

Mamdani er yfirlýstur stuðningsmaður Palestínu og var sakaður af Cuomo um að ýta undir hatur gegn gyðingum. Mamdani ítrekaði hins vegar að hann yrði borgarstjóri allra íbúa New York, líka gyðinga sem styddu Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×