Handbolti

Óhræddur Kristján mætir Íslandi með þrjá nýliða í hópnum á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Andrésson mætti Ísland tvisvar í Höllinni í síðasta mánuði.
Kristján Andrésson mætti Ísland tvisvar í Höllinni í síðasta mánuði. vísir
Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar í handbolta, er ekkert að bíða með það að velja hópinn sem fer á EM í Króatíu um miðjan janúar á næsta ári. Hópinn tilkynnti hann í dag.

Kristján hefur verið algjörlega óhræddur við að stokka upp hópinn og koma inn með nýja menn síðan hann tók við og því heldur hann áfram. Hann fer með þrjá nýliða á EM að þessu sinni.

Hornamaðurinn Jerry Tollbring hjá Rhein-Neckar Löwen, leikstjórnandinn Linus Arnesson hjá Bergischer og vinstri skyttan Philip Henningsson hjá Kristianstad eru allir í hópnum og munu spila á sínu fyrsta stórmóti. Þeir eiga allir fjóra leiki að baki fyrir sænska landsliðið.

Allir þrír eiga það sameiginlegt að vera samherjar íslenskra landsliðsmanna en Guðjón Valur Sigurðsson spilar með Löwen, Arnór Þór Gunnarsson með Bergischer og þeir Arnar Freyr Arnarsson og Ólafur Guðmundsson eru leikmenn Kristianstad.

Kristján verður aftur á móti án línumannsins frábæra Andreas Nilsson hjá Veszprém sem var að eignast barn og hefur tekið þá ákvörðun að eyða janúarfríinu með kærustu sinni og nýja barninu.

„Þetta eru þeir 16 sem ég tel að geti unnið mótið fyrir Svíþjóð,“ segir Kristján Andrésson sem mætir Íslandi í fyrsta leik tólfta janúar í Split.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×