Tíu mótmælendur voru handteknir og nokkrir slösuðust í átökum við lögreglu fyrir utan þing Valkosts fyrir Þýskalands, öfgahægriflokks sem vann sæti á þýska þinginu í fyrsta skipti í haust, í Hannover í gær. Innandyra kusu flokksmenn sér nýja forystu.
Fimm mótmæli voru skipulögð fyrir utan fundarstað Valkosts fyrir Þýskaland (AfD). Ætluðu mótmælendurnir að reyna að slá herkví utan um fundarstaðinn. Lögreglumenn notuðu vatnsþrýstibyssur, kylfur og piparúða til að greiða leið flokksmanna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
AfD hlaut 12,6% atkvæða í þingkosningunum í september. Útlit er fyrir að hann verði stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi nú þegar Kristilegi demókrataflokkur Angelu Merkel kanslara ræðir um samstarfs við sósíaldemókrata.
Alexander Gauland og Jörg Meuthen voru kjörnir forystumenn flokksins en þeim er báðum lýst sem harðlínumönnum. Gauland hét því meðal annars að stöðva „innrás útlendinga“ inn í Þýskaland á fundinum.
AfD hefur verið að færa sig lengra til hægri undanfarin misseri. Í upphafi var flokkurinn stofnaður til höfuðs evrunni en í seinni tíð eru stefnumál hans andstaða gegn innflytjendum og andúð á múslimum. Það er sagt hafa valdið átökum innan flokksins.
Frauke Petry, sem hafði verið þekktasti leiðtogi flokksins, tilkynnti um brotthvarf sitt örfáum dögum eftir kosningarnar.

