Erlent

Margt á huldu eftir fund í Berlín

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel kanslari fylgist með þegar forsetinn Frank-Walter Steinmeier kveður Horst Seehofer, formann Kristilegra demókrata í Bæjaralandi.
Angela Merkel kanslari fylgist með þegar forsetinn Frank-Walter Steinmeier kveður Horst Seehofer, formann Kristilegra demókrata í Bæjaralandi. Vísir/AFP
Lítið hefur spurst út eftir samtöl fulltrúa þýskra Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna um mögulega stjórnarmyndun í Berlín í gærkvöldi.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, boðaði til fundarins sem var haldinn í Bellevuehöllinni. Forsetinn gerir nú allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að boða þurfi til nýrra kosninga.

Jafnaðarmenn höfðu áður lýst því yfir að flokkurinn myndi ekki starfa áfram með Kristilegum demókrötum í stjórn, eftir að flokkarnir biðu báðir afhroð í þingkosningunum sem fram fóru 24. september síðastliðinn.

Kristilegir demókratar, undir forystu Angelu Merkel kanslara, hófu stjórnarmyndunarviðræður við Frjálslynda flokkinn og Græningja eftir kosningarnar en eftir margra vikna viðræður sigldu þær í strand. Eftir það hefur þrýstingur á Martin Schulz, formann Jafnaðarmanna, aukist á að hann endurskoði afstöðu sína til mögulegs stjórnarsamstarfs með Kristilegum demókrötum.

Viðræðurnar í Bellevue í gærkvöldi stóðu í um tvo tíma og munu flokksstofnanir nú leggjast yfir þá niðurstöðu sem þar fékkst. Í kjölfarið verður svo ákveðið hvort að framhald verði á viðræðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×