Samkvæmt frumvarpinu bætist svohljóðandi 210.gr.c við þann kafla laganna sem snýr að banni á klámi:
Hver sem af ásetningi dreifir mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sé brot framið af stórkostlegu gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir að með tækniframförum síðastliðinna ára og áratuga hafi það færst verulega í aukana að mynd- og hljóðefni sem inniheldur nekt eða kynlífsathafnir einstaklinga sé dreift á netinu, án þess að efnið hafi verið ætlað til dreifingar, án leyfis þeirra sem koma fram í efninu og jafnvel án þeirra vitundar.

Núgildandi refsirammi of lágur
Þar segir jafnframt að í íslenskum lögum hefur verið í gildi bann við dreifingu kláms. Dreifing á efni sem innihaldi kynlífsathafnir án leyfis þeirra sem fram í því koma sé strangt til tekið brot á 210. grein almennra hegningarlaga en beiting ákvæðisins sé þó vandkvæðum háð. Í fyrsta lagi sé skilgreining hugtaksins klám óljós. Í öðru lagi feli stafrænt kynferðisofbeldi ekki endilega í sér eiginlegt klám samkvæmt neinni af þeim fjölmörgu skilgreiningum sem finna má.
„Þótt erfitt hafi reynst að skilgreina hugtakið ríkir víðast hvar samhugur um að myndefni sem sýnir nekt án kynlífsathafna teljist vart til kláms nú á dögum jafnvel þótt nekt hafi eflaust í fyrri tíð þótt klámfengin í eðli sínu. Þó telja flutningsmenn þessa frumvarps við hæfi að dreifing efnis sem sýnir nekt einstaklinga án kynlífsathafna verði refsiverð ef efnið var ekki ætlað til dreifingar af þeim sem fram í því koma,“ segir í greinargerðinni.
Þá segir jafnframt að refsiramminn í gildandi ákvæði sé of lágur til að endurspegla alvarleika brotsins.
„Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin misseri vegna slíks ofbeldis, sem áður var nefnt „hefndarklám“ eða „hrelliklám“. Af þeirri umræðu sem hefur farið fram verður að telja ljóst að framleiðsla, birting og dreifing slíks hljóð- eða myndefnis sé ekki klám í nútímalegum skilningi flests fólks, heldur form kynferðisofbeldis. Það er skylda samfélagsins að viðurkenna ofbeldið og að tryggja að við beitingu þess séu í gildi viðurlög. Í því felst viðurkenning á stöðu brotaþola og fordæming á háttsemi brotamanna.“
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og ásamt honum flytja Ágúst Ólafur Ágústsson, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Birgir Þórarinsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jón Steindór Valdimarsson, Jón Þór Ólafsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Smári McCarthy, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Víglundsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir málið.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lagt er fram frumvarp sem gerir slíkt ofbeldi refsivert. Þingmenn Bjartrar framtíðar lögðu tvisvar fram frumvarp um breytingu á 210. grein almennra hegningarlaga. Þar var þó talað um hrelliklám og var lagt til að hámarksrefsing yrði tveggja ára fangelsi.