Leikkonan Mira Sorvino segir að Harvey Weinstein sé ástæða þess að ferill hennar hafi farið út af sporinu. Sorvino er ein af fjölmörgum konum sem sakað hafa framleiðandann um kynferðislega áreitni eða ofbeldi.
Leikstjórinn Peter Jackson sagði í viðtali í vikunni að hann telji að Weinstein bræðurnir hafi vísvitandi talað illa um tilteknar leikkonur, þar á meðal Sorvino og Ashley Judd, vegna þess að þær höfðu hafnað Harvey kynferðislega. Hann segir að fulltrúar Miramax, framleiðslufyrirtæki bræðranna, hafi sagt við hann árið 1998 að það væri ómögulegt að vinna með þeim og að hann ætti að forðast þær eins og heitan eldinn.
Mira Sorvino og Ashley Judd hafa báðar sakað Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni en Jackson segir að hann hafi haft áhuga á því að ráða þær báðar til að leika í Lord of the Rings þríleiknum sem hann leikstýrði. Upprunalega átti Miramax að framleiða þríleikinn en svo varð ekki.
„Á þessum tíma hafði ég enga ástæðu til að draga í efa það sem þeir sögðu mér, en eftir á að hyggja geri ég mér grein fyrir því að líklega var þetta rógsherferð Miramax í fullum gangi,“ segir Jackson.
Hann segir að í kjölfar þessara upplýsinga frá Miramax hafi nöfn þeirra beggja verið tekin út af leikaravalslista fyrirtækis hans.
Sorvino brást við ummælum Jackson og tjáði sig um málið á Twitter reikningi sínum. „Ég var að sjá þetta eftir að ég vaknaði, ég brast í grát. Þarna er staðfesting um að Harvey Weinstein hafi sett feril minn út af sporinu, nokkuð sem mig grunaði en ég var óviss um. Takk Peter Jackson fyrir að vera hreinskilinn. Ég er niðurbrotin.“
Neitar ásökunum enn og aftur
Harvey Weinstein hefur neitað öllum ásökunum á hendur sér. Hann gaf út yfilýsingu í gær þar sem hann segir að ásakanir þess efnis að hann hafi sett konurnar á svartan lista séu ekki sannar.
Þar segir hann Miramax hafi ekki komið nálægt leikaravali fyrir Lord of the Rings. Hann segir einnig að Ashley Judd hafi verið valin í hlutverk í tveimur kvikmyndum á hans vegum og að Sorvino hafi alltaf komið til greina í hans kvikmyndum.
Peter Jackson segir að fullyrðingar Weinstein bræðranna um leikkonurnar hafi orðið til þess að þær komu ekki til greina fyrir hlutverk í þríleiknum. Jackson hefur ekki unnið með Weinstein síðan.