Handbolti

Ýmir: Draumur síðan ég horfði á silfurstrákana í Peking

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn, til hægri.
Bræðurnir Orri Freyr Gíslason og Ýmir Örn, til hægri. Vísir/Eyþór
Ýmir Örn Gíslason, leikmaður Vals, er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót en hann var valinn í EM-hóp Geirs Sveinssonar í dag. Ýmir hefur spilað vel með Val á leiktíðinni og nýtt þau tækifæri sem hann fékk með landslðinu vel. Það var nóg til að sannfæra Geir um að hann ætti heima í íslenska landsliðinu.

Sjá einnig: Erfiðara að velja 28 manna hópinn

„Ég var 11 ára gamall þegar ég horfði á landsliðið vinna silfur í Peking. Það hefur verið draumur hjá mér að fara á stórmót með landsliðinu. Ég er búinn að æfa vel og er þvílíkt spenntur fyrir því sem er að koma - nú er bara að standa sig,“ sagði Ýmir Örn í samtali við Vísi í dag.

Geir sagði í samtali við íþróttadeild fyrr í dag að hann hefði rætt við alla leikmennina í 28 manna hópi Íslands fyrirfram. Því hafi valið ekki komið Ými endilega á óvart.

„En ég var ekki búinn að fá 100 prósent staðfestingu á þessu en miðað við hvernig okkar samtöl voru þá leit þetta vel út fyrir mig,“ sagði hann.

Ýmir Örn á enn tvö ár eftir af samningi sínu við Val eftir tímabilið og er ekki að hugsa sér til hreyfings, þó svo að hann haldi öllum möguleikum opnum.

„Ég er ekkert að flýta mér. Ég er í frábæru liði og með frábæran þjálfara. Svo er ég líka með barn á leiðinni og að mörgu að huga,“ segir hann. „Ég er virkilega sáttur og ánægður með mína stöðu í Val.“

Ýmir Örn spilaði framan af tímabili sem miðjumaður en eftir meiðsli bróður hans, Orra Freys, hefur hann spilað meira á línunni. Hann er þar að auki frábær varnarmaður.

„Eins og staðan er núna er ég mjög sáttur við hvernig ég spila í vörn og ég hef verið að sækjast meira eftir því að spila á línunni. Það er ekki verra að hafa hitt vopnið en línan er að koma sterkari inn hjá mér núna. Ég hef rætt þetta mikið við Snorra [Stein Guðjónsson, þjálfara Vals] og Geir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×