Handbolti

Geir: Ágúst Elí hefur svarað kallinu vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari.
Geir Sveinsson, landsliðsþjálfari. vísir/eyþór
Geir Sveinsson tilkynnti fremur óvænt í dag landsliðshóp sinn fyrir EM í Króatíu sem fer fram í janúar. Sextán manna leikmannahópur var tilkynntur, þar af tveir markverðir.

Tveir stórmótsnýliðar eru í hópnum, markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson úr FH og Ýmir Örn Gíslason úr Val. Innkoma Ágústar Elís vekur einna mest athygli en eftir sitja heima þeir Hreiðar Levý Guðmundsson og Aron Rafn Eðvarðsson sem báðir eiga fjölda stórmóta að baki.

„Það er mikil reynsla í markvarðateyminu. Björgvin og Aron Rafn hafa einokað þessa stöðu síðustu árin. En síðan að ég tók við hefur þróunin verið sú að ég hef viljað fjölga landsliðsmönnum - búa til fleiri landsliðsmenn,“ sagði Geir í samtali við íþróttadeild í dag.

„Ágúst Elí hefur svarað kallinu mjög vel finnst mér. Þó svo að hann hafi aðeins spilað þrjá landsleiki undir minni stjórn þá hefur hann spilað þá alla mjög vel. Hann hefur þar að auki staðið sig vel í þýðingarmiklum leikjum með FH - leikjum í Evrópukeppnum og annað og eins og staðan er í dag þá er hann traustsins verður.“

Geir útilokar ekki að taka sautjánda manninn með liðinu á mótið og að sá maður verði markvörður. Aron Rafn og Hreiðar Levý eru báðir í 28 manna hópi Geirs sem tilkynntur var fyrr í mánuðinum. Aðeins leikmenn sem eru þar á lista eiga möguleika á að spila með íslenska landsliðinu á EM í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×