Innlent

Bjarni: „Höfum náð toppi hagsveiflunnar“

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarni fór yfir helstu hagtölur og forsendur frumvarpsins.
Bjarni fór yfir helstu hagtölur og forsendur frumvarpsins.
Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, segir að allt bendi til að Ísland hafi náð toppi hagsveiflunnar og að hagvöxturinn verði eitthvað minni á næstu árum.

Þetta sagði Bjarni þegar hann kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í fjármálaráðuneytinu í morgun. Bjarni fór þar yfir helstu hagtölur og forsendur frumvarpsins. Heildarafgangur ríkissjóðs árið 2018 er áætlaður um 35 milljarðar króna, um 1,3 prósent af vergri landsframleiðslu.

„Samanlagt verð ég að segja að þessar myndir séu að sýna að við séum að sigla í tímabil þar sem verði meira jafnvægi í efnahagsmálunum,“ sagði ráðherrann.

Bjarni fór þar yfir að afgangur á viðskiptajöfnuði fari dvínandi á komandi árum og að einkaneysla muni drífa hagvöxt næstu ára.

Frumvarpið er það fyrsta sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna leggur fram.

Fyrsta umræða um frumvarpið fer fram á Alþingi á morgun, föstudag, en þing verður sett í dag klukkan 13:30 og í kvöld flytur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stefnuræðu sína og verða svo umræður um hana í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×