Handbolti

„Ætlum að vera í topp átta, hvað sem það kostar“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslensku handboltalandsliðin kosta Handknattleikssamband Íslands um 100 milljónir á ári, en sambandið var rekið með rúmlega 9 milljóna króna tapi á síðasta ári. Arnar Björnsson ræddi við Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Fjármálin standa svo sem allt í lagi. Þetta er náttúrulega mjög þröngur rekstur og hefur verið það í nokkur ár. Það er dýrt að ná árangri og það er dýrt að fara á stórmót,“ sagði Róbert.

HSÍ velti rúmlega 200 milljónum á síðasta rekstrarári, en sambandið fékk 41,5 milljón króna úr afrekssjóði ÍSÍ á árinu.

„Nú er afrekssjóður að stækka á næsta ári, ríkisvaldið er að setja meiri peninga í afreksmálin og það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur.“

Eftir glæsilegan árangur strákanna í handboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 var silfursjóður Reykjavíkurborgar stofnaður með 20 milljón króna framlagi. Sá sjóður er ekki til í dag.

Ísland mætir Svíum í fyrsta leik á EM í Króatíu um miðjan janúar. Róbert segir kostnaðinn við slík mót vera um 25 milljónir.

„Við ætlum að vera í fremstu röð og koma okkur í topp átta í heiminum. Við munum gera það hvað sem það kostar,“ sagði Róbert Geir Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×