Viðskipti erlent

Vilja láta rannsaka áhrif snjallsímanotkunar barna

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Hluthafarnir tveir vilja að snjallsímanotkun barna og áhrif hennar verði könnuð.
Hluthafarnir tveir vilja að snjallsímanotkun barna og áhrif hennar verði könnuð. vísir/getty
Tveir hluthafar í bandaríska tæknirisanum Apple hafa viðrað áhyggjur sínar um óhóflega notkun barna á snjallsímum og vilja hleypa af stað rannsókn til þess að kanna áhrifin sem hún kann að hafa. Frá þessu er greint á vef Bloomberg.

Um er að ræða fjárfestingafélagið Jana Partners og California State Teachers‘ Retirement System, sem eiga hlut í Apple fyrir samtals um tvo milljarða dala. Þau hafa auk þess hvatt fyrirtækið til að koma á sérstakri vörn í síma barna sem gerir foreldrum kleift að stýra notkuninni betur.

Segir í pósti frá félögunum, sem stílaður er á Apple, að grípa þurfi í taumana sem allra fyrst. Undanfarið hafi birst fjölmörg dæmi þess að aukin snjallsímanotkun barna leiði til andlegrar vanlíðan. Afleiðingarnar muni ekki einungis koma til með að hafa áhrif á Apple í framtíðinni, heldur samfélagið í heild.

Það hefur verið töluverður vandræðagangur í starfsemi Apple undanfarið. Undir lok síðasta árs fundust þær kenningar staðfestar að fyrirtækið hægði viljandi á eldri gerðum síma. Þá var skömmu seinna greint frá því að öryggisgallar í örgjörvum frá Intel  hefðu áhrif á iPhone, iPad-spjaldtölvur og Mac-tölvur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×