Tveir hluthafar í bandaríska tæknirisanum Apple hafa viðrað áhyggjur sínar um óhóflega notkun barna á snjallsímum og vilja hleypa af stað rannsókn til þess að kanna áhrifin sem hún kann að hafa. Frá þessu er greint á vef Bloomberg.
Um er að ræða fjárfestingafélagið Jana Partners og California State Teachers‘ Retirement System, sem eiga hlut í Apple fyrir samtals um tvo milljarða dala. Þau hafa auk þess hvatt fyrirtækið til að koma á sérstakri vörn í síma barna sem gerir foreldrum kleift að stýra notkuninni betur.
Segir í pósti frá félögunum, sem stílaður er á Apple, að grípa þurfi í taumana sem allra fyrst. Undanfarið hafi birst fjölmörg dæmi þess að aukin snjallsímanotkun barna leiði til andlegrar vanlíðan. Afleiðingarnar muni ekki einungis koma til með að hafa áhrif á Apple í framtíðinni, heldur samfélagið í heild.
Það hefur verið töluverður vandræðagangur í starfsemi Apple undanfarið. Undir lok síðasta árs fundust þær kenningar staðfestar að fyrirtækið hægði viljandi á eldri gerðum síma. Þá var skömmu seinna greint frá því að öryggisgallar í örgjörvum frá Intel hefðu áhrif á iPhone, iPad-spjaldtölvur og Mac-tölvur.
Vilja láta rannsaka áhrif snjallsímanotkunar barna
Tengdar fréttir
Apple biður viðskiptavini sína afsökunar
Í síðustu viku staðfesti Apple grunsemdir margra um að fyrirtækið hafi hægt viljandi á eldri gerðum iPhone-snjallsíma.
Apple gengst við því að hægja viljandi á gömlum iPhone-símum
Forsvarsmenn Apple segja að líftími liþíumjónabattería valdi því að hægja þurfi á kerfinu. Gæði batteríanna rýrni með tímanum og því þurfi að hægja á nýjustu stýrikerfum svo síminn slökkvi einfaldlega ekki á sér.
Öryggisgallar í örgjörvum hafa áhrif á tæki Apple
Apple hefur greint frá því að alvarlegir öryggisgallar sem fundist hafa í örgjörvum hafi áhrif á iPhone, iPad-spjaldtölvur og Mac-tölvur.