Handbolti

Guðjón Valur sá markahæsti í sögunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur náð ótrúlegum árangri á ferli sínum.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur náð ótrúlegum árangri á ferli sínum. Vísir/Getty
Guðjón Valur Sigurðsson bætti í dag met er hann skoraði fjórtánda mark Íslands í æfingaleik gegn Þýskalandi í Neu-Ulm en með því varð hann markahæsti landsleikjamaður heims frá upphafi.

Guðjón Valur er nú kominn með 1798 mörk fyrir íslenska landsliðið en Peter Kovacs, sem skoraði 1797 mörk fyrir ungverska landsliðið á sínum tíma, átti metið áður. Landsliðsferli hans lauk árið 1995, á HM á Íslandi.

Vallarþulurinn í Neu-Ulm tilkynnti eftir mark Guðjóns Vals að hann ætti nú heimsmetið og risu áhorfendur úr sætum og klöppuðu fyrir íslenska landsliðsfyrirliðanum.

Ívar Benediktsson, blaðamaður Morgunblaðsins, hefur tekið þessar upplýsingar saman en hann benti á þann 1. mars síðastliðinn að metið hjá Kovacs væri í hættu.

Samkvæmt úttekt hans hafa aðeins fjórir leikmenn skorað meira en 1500 landsliðsmörk á ferlinum og eru tveir þeirra íslenskir - Guðjón Valur og Ólafur Stefánsson (1570 mörk). Fjórði maðurinn á listanum er Lars Christiansen frá Danmörku með 1503 mörk.

Hér má fylgjast með beinni textalýsingu frá viðureign Þýskalands og Íslands.

Uppfært 14.15: Fréttin var uppfærð eftir að Guðjón Valur skoraði annað mark sitt í leiknum og bætti þar með metið, sem hann hafði jafnað þegar hann skoraði sjötta mark Íslands í leiknum gegn Þýskalandi.


Tengdar fréttir

Í beinni: Þýskaland - Ísland | Síðasti leikur fyrir EM

Guðjón Valur Sigurðsson bætti heimsmetið í fjölda landsliðsmarka í dag en fátt annað stendur upp úr eftir níu marka tap Íslands gegn Þýskalandi í síðasta leik strákanna okkar fyrir EM í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×