Handbolti

Frábær lokakafli Wolff skilaði Þýskalandi sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Faeth sækir að tékkneska markinu í dag en hann var markahæstur með átta mörk í þýska liðinu.
Faeth sækir að tékkneska markinu í dag en hann var markahæstur með átta mörk í þýska liðinu. Vísir/getty
Andreas Wolff lokaði fyrir markið á lokamínútunum sem skilaði þýska landsliðinu í handbolta 22-19 sigri á Tékklandi á EM í handbolta í Króatíu í leik sem lauk rétt í þessu.

Bæði lið voru aðeins með tvö stig fyrir leikinn og þýddi það að allt annað en sigur gerði nánast út um möguleika liðanna á verðlaunum á mótinu.

Tékkar sem fengu stóran skell í fyrstu umferð gegn Spánverjum byrjuðu af krafti og voru með frumkvæðið framan af. Spiluðu sterka vörn og gáfu þýska liðinu ekkert eftir og leiddu með einu marki í hálfleik, 10-9.

Tékkneska liðið hélt forskotinu framan af í seinni hálfleik en á lokakaflanum var komið að Wolff í marki Þýskalands.

Varði hann vel á sama tíma og þýska liðinu tókst að finna glufur á varnarleik Tékklands og skilaði það forskoti sem Tékkar náðu ekki að brúa.

Steffen Faeth var atkvæðamestur í þýska liðinu með átta mörk en Uwe Gensheimer kom næstur með þrjú mörk.

Með sigrinum skaust Þýskaland sem hefur titil að verja á mótinu upp í efsta sæti 2. riðils en Makedónía, Spánn og Danmörk eiga öll leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×