Kevin Kühnert, formaður Jusos, ungliðahreyfingar Jafnaðarmannaflokksins (SPD) í Þýskalandi, þykir vera nýr erkióvinur Angelu Merkel kanslara. Ástæðan er sú að hreyfingin hefur talað einna hæst gegn því að SPD hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður og fari aftur í ríkisstjórn með Kristilegum demókrötum Merkel.
„Pólitískt líf kanslarans veltur á Jusos,“ sagði í Die Welt í vikunni en auk þess að vera nú í andstöðu við Merkel er hinn 28 ára Kühnert nú í andstöðu við formann sinn, Martin Schulz. Kühnert hefur verið leiðtogi Jusos frá því í nóvember.
Flokksmenn Jafnaðarmannaflokksins þinga á sunnudaginn og munu þá greiða atkvæði um hvort hefja eigi formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ef af því verður stefnir í lok lengstu stjórnarkreppu Þjóðverja frá því í seinna stríði.
„Það að líta alltaf aftur til stórbandalagsins vegna þess að við erum hrædd um að allt annað sé ennþá verra mun hafa slæm áhrif á SPD í framtíðinni,“ sagði Kühnert á blaðamannafundi í gær. Þá sagðist hann bjartsýnn og taldi góðar líkur á því að flokksþingið felldi tillöguna á sunnudaginn.
Erlent