Viðskipti erlent

Notendur munu geta komið í veg fyrir að eldri iPhone-símar hægi á sér

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. Vísir/Getty Images
Tim Cook, forstjóri Apple, segir að innan tíðar geti notendur slökkt á hugbúnaðinum sem hægir á eldri gerðum af iPhone-símum. 

Fyrirtækið var harðlega gagnrýnt fyrir skömmu þegar það staðfesti að það hægi viljandi á eldri gerðum af iPhone-símum. Uppgefin ástæða fyrirtækisins er sú að gæði rafhlaðna í eldri símum rýrni með tímanum og því þurfi í sumum tilvikum að hægja á nýjustu stýrikerfum svo síminn slökkvi einfaldlega ekki á sér.

Þeirri samsæriskenningu hefur verið haldið á lofti undanfarið að fyrirtækið hægi viljandi á eldri gerðum síma til þess að ýta undir kaup á nýrri gerð.

Í viðtali við ABC þvertók Cook fyrir að sú væri raunin. Þá gaf hann út að fyrirtækið myndi á næstunni gefa út uppfærslu sem geri notendum kleyft að slökkva á þessum eiginleika símans.

„Í uppfærslu sem kemur út í næsta mánuði verður notendum gert kleyft að sjá hvernig staðan er á gæði batterísins,“ sagði Cook. „Við munum láta notendur vita þegar hugbúnaðurinn er að hægja á símanum til þess að koma í veg fyrir að síminn slökkvi á sér. Ef þú vilt ekki að það gerist er hægt að slökkva á hugbúnaðinum“.

Apple hefur sem fyrr segir verið harðlega gagnrýnt eftir að upp komst um hugbúnaðinn sem um ræðir og hafa yfirvöld í Bandaríkjunum og í Frakklandi krafist skýringa frá Apple vegna málsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×