Handbolti

Fyrirliði karlalandsliðsins gagnrýnir tímasetninguna hjá Noru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk.
Nora Mörk. Vísir/Getty
Norska handboltalandsliðið tryggði sér í gær sæti í milliriðli á EM í Króatíu eftir öruggan ellefu marka sigur á Austurríkismönnum. Það gekk hinsvegar mikið á í kringum liðið í aðdraganda leiksins eftir yfirlýsingu landsliðskonunnar Noru Mörk.

Nora Mörk sagði frá fyrr um daginn að leikmenn karlalandsliðsins hafi verið að dreifa sín á milli viðkvæmum myndum af sér en myndunum var stolið úr síma hennar.

Handboltasambandið vissi af þessu í nóvember en Mörk fannst menn þar á bæ taka mjög léttvægt á málinu og því kom hún nú fram, sagði frá dreifingu myndanna hjá leikmönnum karlalandsliðisins og hótaði því jafnframt að hætta að spila með norska landsliðinu.

Bjarte Myrhol, fyrirliði norska karlalandsliðsins, gagnrýnir tímasetninguna hjá Noru en hún ákveður að henda þessu fram í dagsljósið í miðju stórmóti hjá körlunum.

„Þetta var slæm byrjun á deginum hjá okkur. Að fá svona mál í fangið á leikdegi,“ sagði Bjarte Myrhol í viðtali við Verdens Gang en VG birti viðtalið við Noru og hefur farið fyrir umfjöllunni um málið í Noregi.





Bjarte Myrhol.Vísir/Getty
„Ég get bara talað fyrir mig sjálfan en þetta var mjög erfitt. Það vill enginn sjá svona persónulegt mál koma upp í miðju stórmóti,“ sagði Myrhol.

„Það var rétt að segja frá þessu en tímasetningin er alröng. Ég sagði Noru að ég væri mjög ósammála henni í að koma með þetta fram í dagsljósið núna. Mitt mat er að hún sé bara svo reið út í norska handboltasambandið,“ sagði Myrhol.

„Við höfum verið í sambandi við Noru. Hópur leikmanna hefur talað við hana og stutt við bakið á henni. Við töluðum við hana og létum hana vita af því að myndirnar væru í dreifingu. Það er mitt mat að við höfum staðið saman í að styðja við bakið á henni. Það er því dapurlegt að við séum settir í þessa vondu stöðu,“ sagði Myrhol.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×