Handbolti

Þýskaland bjargaði stigi eftir að dómararnir beittu myndbandstækni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dómararnir voru í eldlínunni í kvöld.
Dómararnir voru í eldlínunni í kvöld. vísir/getty
Þjóðverjar misstigu sig gegn Slóveníu í C-riðli á meðan Spánverjar mörðu Ungverja í D-riðli. Þessir leikir voru að klárast á HM í Króatíu.

Ungverjarnir gáfu Spánverjunum hörkuleik, en Spánverjarnir leiddu í hálfleik, 13-12. Áfram var harkan og spennan mikil í síðari hálfleik og lokatölur tveggja marka sigur Spánar, 27-25.

Adrian Figueras, Aitor Arino, Alex Dujshebaev og Valero Rivera skoruðu allir fjögur mörk fyrir Spán sem eru með fjögur stig.

Bence Banhidi var markahæstur Ungverja með sex mörk, en Zsolt Balogh skoraði fimm. Ungverjar eru án stiga.

Spánn og Danmörk mætast í lokaumferðinni, en það verður að öllum líkindum úrslitaleikur um toppsætið. Í hinni viðureigninni mætast Tékkland og Ungverjaland.

Slóvenar og Þjóðverjar gerðu jafntefli 25-25 í æsispennandi leik í C-riðli. Úrslitin réðust algjörlega í blálokin.

Sigurmarkið virtist koma fjórar sekúndum fyrir leikslok þegar Blaz Janc skoraði, en dómararnir beittu meðal annars myndbandstækni til þess að skera úr um hvort markið hafi verið löglegt.

Það leiddi til þess að þeir sáu brot Slóvena í kjölfar marksins og Þjóðverjarnir fengu vítakast. Blaz Blagotinsek var sendur í sturtu, en hann stóð inn í miðjuhringnum þegar Þjóðverjarnir ætluðu að taka hraða miðju í kjölfar marks Janc.

Þjóðverjar fengu því vítakast því brot undr lok leiksins leiðir til vítakasts. Tobias Reichmann fór á punktinn og skoraði. Lokatölur 25-25 og Slóvenarnir algjörlega brjálaðir, en þeir geta kennt Blaz um þessa vitleysu.

Slóvenarnir eru því komnir með eitt stig, en Þjóverjarnir eru með þrjú stig, en Makedónía og Svartfjallaland mætast í kvöld.

Uwe Gensheimer skoraði sjö mörk fyrir Þjóðverja, en markahæstur Slóvena var Miha Zarabec sem átti afar góðan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×