Handbolti

Drengirnir hans Kristjáns komnir á blað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristján Andrésson þjálfar Svía.
Kristján Andrésson þjálfar Svía. vísir/getty
Svíþjóð er komið með tvö stig í A-riðli, riðli okkar Íslendinga, eftir sigur á Serbum í fyrri leik dagsins í Split í dag, 30-25.

Svíarnir voru sterkari aðilinn allt frá byrjun og höfðu lengst af gott forskot, en Mikael Appelgren var að verja mjög vel í marki Svía. Hann var að lokum valinn maður leiksins.

Þeir gulklæddu leiddu 16-10 í hálfleik og þrátt fyrir áhlaup Serbana í síðari hálfleik þá ríghéldu Svíarnir í forskotið. Þeir unnu að lokum fimm marka sigur, 30-25.

Albin Lagergren var markahæstur Svíana með fimm mörk, en næstir komu Lukas Nilsson, Johan Jakobsson og Nicklas Ekberg allir með fjögur mörk.

Hjá Serbunum var Nemanja Ilic markahæstur með fimm mörk, en næstur kom Petar Nenadic með fjögur stykki. Hann þurfti þó níu skot til þess.

Svíþjóð er því komið með tvö stig í riðlinum, jafn mörg og Íslands sem leikur gegn Króatíu í kvöld. Þjálfarinn er að sjálfsögðu Kristján Andrésson.

Serbarnir eru á botninum án stiga og eru á leið úr leik enda eiga þeir að spila við gestgjafana í Króatíu á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×