Handbolti

Danir hefndu ófaranna fyrir Guðmund

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rasmus Lauge átti stórleik í kvöld.
Rasmus Lauge átti stórleik í kvöld. Vísir/Getty
Danir fara vel af stað á EM í handbolta eftir öruggan sigur á Ungverjum í D-riðli í kvöld, 32-25.

Þar með náðu þeir að hefna fyrir óvænt tap liðsins fyrir Ungverjum í 16-liða úrslitum HM í Frakklandi í fyrra. Það reyndist vera síðasti leikur Guðmundar Guðmundssonar með danska landsliðið.

Danir voru með tveggja marka forystu að loknum fyrri hálfleiknum, 14-12, en stungu Ungverja af í þeim síðari. Mestu munaði um 6-1 kafla Dana snemma í síðari hálfleik.

Rasmus Lauge Schmidt skoraði sjö mörk fyrir Dani og Mikkel Hansen sex. Mate Lekai skoraði fimm mörk fyrir Ungverja.

Niklas Landin fann sig engan veginn í marki Dana í kvöld og varði aðeins eitt af þeim ellefu skotum sem hann fékk á sig í kvöld. Jannick Green kom inn og átti stórleik - varði 10 skot og var með 43% hlutfallsmarkvörslu.

Í sama riðli fóru Spánverjar létt með Tékka, 32-15. Tékkar voru sjö mörkum undir í hálfleik, 16-9, og skoruðu svo aðeins sex mörk í síðari hálfleik.

Þrír leikmenn skoruðu fimm mörk fyrir Spánverja í kvöld - Valero Rivera, Raul Entrerrios og Ferran Sole en markahæstur hjá Tékkum var Stanislav Kasparek með fimm mörk.

Rodrigo Corrales átti stórleik í marki Spánar eftir að hann kom inn á og varði átta skot - 57% þeirra sem hann fékk á sig í leiknum.

Í C-riðli vann Makedónía heldur óvæntan sigur á Slóveníu, 25-24. Filip Lazarov skoraði sigurmark Makedóníu en ekkert var skorað síðustu þrjár mínútur leiksins.

Tveir menn - Dejan Manaskov með átta mörk og Lazarov með sjö - skoruðu fimmtán af 25 mörkum Makedóníu í kvöld.

Fyrr í dag vann Þýskaland öruggan sigur á Svartfjallalandi í sama riðli, 32-19.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×