Handbolti

Þjóðverjar byrjuðu á stórsigri á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kai Häfner í leiknum í dag.
Kai Häfner í leiknum í dag. Vísir/Getty
Þjóðverjar fara frábærlega af stað á EM í handbolta og unnu afar öruggan sigur á Svartfjallalandi í dag, 32-19.

Þýskaland fór illa með strákana okkar í íslenska landsliðinu í tveimur æfingaleikjum um helgina og unnu þægilega sigra. Það sama var uppi á teningnum í dag.

Þeir þýsku voru með átta marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 17-9, og gerðu í raun út um leikinn með því að skora átta mörk í röð og komast tíu mörkum yfir, 13-3, eftir aðeins 21 mínútu. Það reyndist aðeins formsatriði eftir þetta að klára leikinn.

Uwe Gensheimer skoraði níu mörk fyrir þýska liðið og Paul Drux fimm. Skotnýting þýska liðsins var frábær í leiknum eða 76 prósent. Markahæstur hjá Svartfjallalandi var Vladan Lipovina með sjö mörk.

Makedónía og Slóvenía eru einnig í C-riðli og eigast við síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×