Handbolti

Geir fékk þrjá íslenska þjálfara til þess að greina andstæðingana á EM

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Geir á hóteli landsliðsins í dag.
Geir á hóteli landsliðsins í dag. vísir/ernir
Geir Sveinsson landsliðsþjálfari var að vonum kátur í dag. Tvö stig í hús í gær og allir leikmenn íslenska liðsins sluppu við meiðsli í leiknum. Hann fór strax yfir leikinn með sínu liði í morgun.

„Við byrjuðum á að skoða okkar leik. Fórum yfir hvað var gott og hvað er hægt að gera betur. Okkur finnst gott að kíkja á okkur sjálfa,“ segir Geir.

Hann sinnir mikilli vinnu á svona mótum ásamt aðstoðarþjálfara sínum, Óskari Bjarna Óskarssyni, en hann sótti líka aðstoð til þess að aðstoða við að greina andstæðinga Íslands á mótinu.

„Leikmenn sjálfir eru mjög frjóir og við erum stöðugt að henda efni í þá. Við viljum að þeir séu þátttakendur í þessu. Það skiptir miklu máli að leikstjórnendur liðsins sinni þessu og skoði efni.

„Svo fengum við góða aðstoð frá mönnum heima. Gunnar Magnússon greindi Króatana, Snorri Steinn var með Serbíu og Ágúst Jóhannsson var með Svíþjóð. Svo hittum við þá rétt áður en við fórum út og þeir gáfu okkur upplýsingar. Þetta kemur alltaf að notum,“ segir Geir en hann er afar hrifinn af slíku samstarfi.

„Þetta gengur út á að við viljum allir ná árangri og þetta skiptir okkur alla máli. Við eigum bunka af hæfileikaríkum þjálfurum og það er um að gera að nýta þekkinguna. Oft sjá betur augu en auga.“


Tengdar fréttir

Duvnjak úr leik hjá Króötum

Einn sterkasti leikmaður Króata, Domagoj Duvnjak, meiddist í leik liðsins við Serbíu í gærkvöld og er tvísýnt um þáttöku hans í þeim leikjum sem eftir eru á Evrópumótinu.

Myndaveisla frá Split

Ísland vann sigur á Svíum í frábærum leik í fyrsta leik liðsins á Evrópumótinu í Króatíu í dag. Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis, er í Split og festi daginn á filmu.

Skýrsla Henrys: Tóku Svíana í vörina

Svo frábær var leikur strákanna okkar í 40 mínútur að liðið gat leyft sér að eiga tvo slæma kafla gegn sterku liði Svía og vinna samt. Það er magnað. Íslenska liðið tók þjóðina í enn eina rússibanareiðina í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×