Erlent

Trump virðist þræta fyrir að hafa talað um „skítaholur“

Kjartan Kjartansson skrifar
Margir hafa túlkað ummælin sem höfð eru eftir Trump sem enn eina vísbendinguna um að hann sé rasisti.
Margir hafa túlkað ummælin sem höfð eru eftir Trump sem enn eina vísbendinguna um að hann sé rasisti. Vísir/AFP
Ummælin sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði uppi um nokkur ríki Mið-Ameríku og Afríku voru „hörð“ en ekki þau sem greint hefur verið frá. Þetta fullyrðir Trump á Twitter-síðu sinni. Viðstaddir segja að hann hafi kallað lönd eins og Haítí „skítaholur“ á fundi með þingmönnum í gær.

Washington Post sagði upphaflega frá ummælum Trump á fundinum en fleiri fjölmiðlar fengu þau staðfest í kjölfarið. Forsetanum á að hafa gramist hugmyndir þingmanna um að vernda fólk frá löndum eins og Haítí, El Salvador, Hondúras og nokkrum Afríkuríkjum í tengslum við uppstokkun á innflytjendastefnu Bandaríkjanna.

„Af hverju erum við að fá allt þetta fólk frá skítaholulöndum hingað?“ á Trump að hafa sagt þingmönnunum og átti við fyrrnefndu löndin.

Eins og gefur að skilja vöktu ummælin töluvert fjarðrafok. Stjórnvöld á Haítí hafa meðal annars krafið Bandaríkjastjórn skýringa á þeim. Talsmenn Hvíta hússins þrættu ekki fyrir ummælin þegar fjölmiðlar óskuðu eftir viðbrögðum í gær.

Skjáskot/Twitter
Enn og aftur greip Trump til Twitter til að svara fyrir sig í dag.

„Orðalagið sem ég notaði á fundi um DACA var hart en þetta var ekki orðalagið sem var notað,“ tísti forsetinn og virtist þar vísa til ummælanna um „skítaholur“. DACA er áætlun bandarískra yfirvalda sem hefur veitt börnum sem komu ólöglega til landsins með foreldrum sínum áframhaldandi dvarlarleyfi í Bandaríkjunum.

Þá fullyrðir Trump að hann hafi ekki sagt neitt níðandi um Haíti. Washington Post hafði eftir embættismanni úr Hvíta húsinu að Trump hafði krafist þess að fólk þaðan yrði tekið af lista fólks sem nyti sérstakrar verndar gagnvart brottflutningi.

„Sagði aldrei neitt niðrandi um Haítíbúa annað en að Haítí er augljóslega mjög fátækt land í vanda statt. Ég sagði aldrei „takið þau út“. Búið til af demókrötum. Ég á í frábæru sambandi við Haítíbúa. Ætti líklega að taka upp fundi í framtíðinni – því miður, ekkert traust!“ tísti forsetinn.

Athygli vakti á sínum tíma þegar Trump ýjaði sterklega að því að hann ætti upptökur af samtölum við James Comey, forstjóra alríkislögreglunnar FBI, sem hann rak eftir að Comey hafði greint frá vafasömum samskiptum þeirra. Síðar þurfti Trump að viðurkenna að engar slíkar upptökur væru til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×