Skoðun

Efling iðnnáms

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Tæknibyltingin er í senn mikið tækifæri fyrir samfélög en um leið áskorun. Þess er krafist af okkur að við tileinkum okkur ákveðna færni til að leysa vandamál á nýjan hátt og með skilvirkari leiðum en við þekkjum fyrir. Þess vegna er brýnt að menntakerfið okkar sé í fremstu röð til að geta sýnt þá framsýni sem nauðsynlegt er til að styrkja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að efla eigi iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og til að takast á við þær breytingar sem eru fram undan á vinnumarkaðnum. Stefna hefur verið mörkuð í þessum tilgangi og má skipta henni upp í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi er horft til uppbyggingar náms og hvernig megi efla það. Í öðru lagi á að styrkja allt utanumhald með verk- og starfsþjálfun. Í þriðja lagi á að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi.

Rafræn ferilbók er mikilvægur liður í því að einfalda utanumhald og auka gæði í verk- og starfsþjálfun. Rafræn ferilbók er hugbúnaður sem leysir af hólmi ferilbækur í pappírsformi. Ávinningurinn af því að innleiða rafræna ferilbók er mikill. Fyrir nemendur, þá mun hún auka fjölbreytni náms og námsmats í starfsþjálfun. Ferilbókin á að tryggja að nemandinn fái þjálfun í þeim verkþáttum sem hæfnikröfur gera ráð fyrir. Að auki mun þetta styrkja réttindi starfsnámsnemenda, þar sem ætlunin er að nemasamningar verði vistaðir í ferilbókinni. Fyrir atvinnulífið, er ábatinn sá að samskiptin við skólakerfið verða skilvirkari og einfaldari. Þetta mun auka gæði námsins, þar sem nemandinn fær viðeigandi þjálfun í öllum hæfniþáttum. Útkoman verður öflugra nám, sem styrkir atvinnulífið og fjölgar iðnmenntuðum í landinu.

Til að innleiðing rafrænnar ferilbókar takist sem best þarf að koma til samstillt átak atvinnulífs, ráðuneytis og skóla. Þessi aðgerð endurspeglar tækniþróun og nýsköpun hjá hinu opinbera. Það er ánægjulegt að veita þessu máli brautargengi, þar sem þetta er í samræmi við það markmið stjórnvalda að efla iðnnám í landinu.






Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×