Viðskipti innlent

Eigendur Egils Árnasonar og Harðviðarvals skoða sölu

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Harðviðarval hagnaðist um 45 miljónir króna árið 2016.
Harðviðarval hagnaðist um 45 miljónir króna árið 2016.
Eigendur verslanafyrirtækjanna Egils Árnasonar og Harð­viðarvals skoða nú mögulega sölu á fyrirtækjunum. Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa þeir leitað til verðbréfafyrirtækisins Arctica­ Finance­ til þess að kanna áhuga fjárfesta á kaupum á fyrirtækjunum.

Egill Árnason og Harðviðarval eru í eigu feðganna Ásgeirs Einarssonar og Einars Gottskálkssonar. Ásgeir segir í samtali við Markaðinn að ekkert formlegt söluferli sé í gangi eins og staðan sé í dag. Engin ákvörðun hafi verið tekin um slíkt.

Egill Árnason hagnaðist um ríflega 89 milljónir króna árið 2016 borið saman við 19 milljóna króna hagnað árið áður. Voru rekstrartekjur verslunarinnar 751 milljón króna árið 2016. Átti félagið eignir upp á 315 milljónir króna í lok ársins. Hagnaður Harðviðarvals nam 45 milljónum króna árið 2016 og dróst saman um 11 milljónir króna á milli ára. Rekstrartekjur verslunarinnar voru 407 milljónir og jukust um 136 milljónir frá árinu 2015. Eignirnar voru um 114 milljónir í lok árs 2016.



Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×