Handbolti

Mætti með belginn fullan af bjór og frönskum en lokaði markinu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arpad Sterbik er stórkostlegur markvörður og það sýndi hann í Króatíu.
Arpad Sterbik er stórkostlegur markvörður og það sýndi hann í Króatíu. vísir/getty
Spænski markvörðurinn Arpad Sterbik fór á kostum í seinni hálfleik í gærkvöldi þegar að Spánn varð Evrópumeistari í fyrsta sinn eftir sigur á lærisveinum Kristjáns Andréssonar í úrslitaleik EM 2018 í Króatíu. Sterbik lokaði markinu og lagði grunninn að sigri þeirra spænsku.

Sterbik, sem fór einnig hamförum á HM 2013 þegar að Spánn varð heimsmeistari á heimavelli, var hættur í markinu hjá spænska landsliðinu en gaf leyfi fyrir því að vera á 28 manna listanum þannig að hægt væri að kalla á hann ef eitthvað kæmi upp á.

Svo fór að aðalmarkvörður spænska liðsins, Gonzalo Pérez de Vargas, meiddist og voru þá góð ráð dýr fyrir undanúrslitaleikinn á móti Frakklandi. Sterbik mætti til leiks og kom inn á bara til að reyna að vera vítaköst franska liðsins. Hann varði þrjú af fjórum er Spánn komst alla leið í úrslit.

Sterbik spilaði svo allan seinni hálfleikinn í gær og lokaði rammanum en hann var útnefndur maður leiksins í leikslok. Ekki amaleg uppskera að fá þann titil og eina gullmedalíu fyrir að spila minna en heilan leik í heildina á öllu mótinu.

En hvernig lagði þessi magnaði markvörður grunninn að því að vera svona tilbúinn í slaginn? „Ég var bara að slappa af heima. Ég var að drekka bjór og éta franskar áður en ég fékk boð um að mæta til Króatíu,“ sagði Arpad Sterbik hreinskilinn eftir sigurinn í gær.

Geggjaða vörslu frá því í gærkvöldi og vítin þrjú sem Sterbik varði á móti Frakklandi má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Frakkar tóku bronsið

Frakkar fara heim með bronsverðlaun af Evrópumótinu í Króatíu eftir sigur á Dönum í bronsleiknum, 32-29.

Svíar fengu silfur

Annað Evrópumótið í handbolta í röð var íslenskur þjálfari í úrslitum. Kristjáni Andréssyni tókst þó ekki að leika sama leik og Degi Sigurðssyni, sem gerði Þýskaland að Evrópumeisturum fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×